Norrænar eyjar leggi áherslu á frumkvöðlamenntun

14.11.16 | Fréttir
Unga entreprenorer
Áhersla á frumkvöðlamenntun getur reynst strjálbýlum eyjum mikilvæg fjárfesting. Þetta sýnir kortlagning á sjö norrænum eyjum, sem var framkvæmd innan ramma verkefnisins „Nordic Entrepreneurship Islands“. Niðurstöður benda til þess að þrátt fyrir að vera ansi ólíkar innbyrðis búi allar eyjarnar yfir ónýttum möguleikum hvað snerti unga frumkvöðla.

„Nordic Entrepreneurship Islands“ var ýtt úr vör í nóvember 2015. Verkefnið var til eins árs og var markmið þess að rannsaka og kortleggja kennslu í frumkvöðlastarfi í skólum og námi eftir stúdentspróf á sjö völdum eyjum á Norðurlöndum.

Markmiðið til lengri tíma litið felst í líflegum eyjasamfélögum með blómlegu atvinnulífi – jafnvel þar sem þróunin virðist vera  á annan veg.

Hvatningarstyrkur

Fyrsta skrefið getur falist í því að fjárfesta í frumkvöðlamenntun í skólunum. Næsta skref getur svo verið að veita hvatningarstyrk til hugvitssamra ungmenna, sem ákveða þá ef til vill að láta reyna á hugmyndir sínar í heimabænum í stað þess að flytja.

Þær eyjar sem tekið hafa þátt í verkefninu eru Borgundarhólmur í Danmörku, Andøya í Noregi, Gotland í Svíþjóð og Parainen í Finnlandi auk Álandseyja, Færeyja, Grænlands og Íslands.

Á síðastliðnu ári hafa sjö verkefni ungmenna hlotið styrki innan ramma verkefnisins, eitt frá hverri eyju. Til dæmis hlaut íslenska verkefnið, Rentmate  – sem á að hjálpa námsfólki að finna sér heimili í Reykjavík – styrk að upphæð 25 þúsund da.kr. til frekari hugmyndaþróunar.

Stigabanki fyrir sjálfboðaliða

Á Andøya hefur hópur framhaldsskólanema hlotið styrk til verkefnisins „Get’em points“, sem gengur út á að búa til stigabanka fyrir sjálfboðaliða sem taka þátt í menningarhátíðum.

Ein af niðurstöðum norræna eyjaverkefnisins er á þá leið að greinilegt samband er á milli almennrar stefnu um frumkvöðlamenntun og þess fjölda nemenda sem fær kennslu í frumkvöðlastarfi á eyjunum.

Umfang frumkvöðlamenntunar á eyjunum birtist einnig í þeim fjölda styrkumsókna sem barst, að sögn Christians Vintergaard, framkvæmdastjóra danska nýsköpunarsjóðsins, sem sá um samhæfingu verkefnisins á eyjunum.

„Það munar greinilega um það að hafa stefnu. Stefna í þessum málum var ekki til staðar á öllum eyjunum sem skoðaðar voru, þó að þær kynnu að tilheyra landi sem hafði eigin stefnu. Á Borgundarhólmi er frumkvöðlamenntun hluti af námskrá margra skóla, þar sem Danmörk hefur almenna stefnu á þessu sviði. Ísland er einnig gott dæmi, þar eru margir ungir frumkvöðlar, en þó er engin stefna enn sem komið er,“ segir Christian Vintergaard.

Þekking fyrir vinnumarkaðinn

Á eynni Andøya starfa sex ungmenni frá framhaldsskólanum í Andøy að því að hrinda hugmyndinni að „Get’em points“ í framkvæmd. Grundvallarhugmyndin felst í því að ungmenni með minni fjárráð eigi þess einnig kost að taka þátt í menningarhátíðum og öðrum menningarviðburðum.

„Við hlökkum mikið til þess að reka okkar eigið fyrirtæki einhvern daginn. Til að byrja með könnum við áhugann hér á litlu eynni okkar, Andøya, en vonumst til þess að þjónustan geti orðið aðgengileg um allan Noreg,“ segir Sandra Ström, fjármálastjóri verkefnisins.

Sandra stundar nám á þriðja ári við framhaldsskólann í Andøy, þar sem frumkvöðlanám er valkvætt fag á öðru og þriðja ári. 

„Þetta er mikilvægt fag, það er áhugavert og ögrandi og maður öðlast dýrmæta þekkingu sem getur nýst á vinnumarkaði seinna meir,“ segir Sandra Ström.  

Þann 16. nóvember fer lokaráðstefna verkefnisins fram í Kaupmannahöfn, og mun lokaskýrslan innihalda efnahagsgreiningu varðandi frumkvöðlamenntun á hverri eyju fyrir sig.

„Við metum það umfang fjárfestinga sem við teljum nauðsynlegt að setja í frumkvöðlamenntun og styrki, svo að eyjarnar fái fullnýtt þá möguleika sem búa í unga fólkinu,“ segir Christian Vintergaard.