Nefnd: Framleiðendaábyrgð á að skila sér í sjálfbærari vefnaðarvöru

07.02.24 | Fréttir
Utskottet för ett hållbart Norden håller möte i Stockholm februari 2024.
Photographer
Sarah Andersson/Norden.org

Norræna sjálfbærninefndin fundaði í sænska þinghúsinu á þriðjudaginn.

Ríkisstjórnir Norðurlanda ættu að taka upp sameiginlegar reglur varðandi framleiðandaábyrgð á vefnaðarvöru. Svo hljóðar tillaga frá sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs. Einhugur var um tillöguna á fundi nefndarinnar í Stokkhólmi á þriðjudag.

Mikilvægur hluti af markmiðinu með því að taka upp framleiðendaábyrgð er að draga úr því mikla magni af fatnaði og vefnaðarvöru sem notað er á Norðurlöndum.

Tísku- og vefnaðarvöruiðnaðurinn er einn mest mengandi iðnaður í heimi. Allt að 8–10 prósent af losun á heimsvísu má rekja til greinarinnar og á hverju ári nota Norðurlandabúar meira af vefnaðarvöru en að meðaltali gengur og gerist í heiminum samkvæmt greiningu frá Norrænu ráðherranefndinni.

Tillaga sjálfbærninefndarinnar er í takt við fyrirætlanir ESB því til lengri tíma litið er ætlunin að sameiginlegar reglur um framleiðendaábyrgð á vefnaðarvöru verði skyldubundnar í löndum ESB og EES.

Norrænu löndin hafa lengi lagt á það áherslu að skapa sjálfbæran vefnaðarvöruiðnað. Með þessari tillögu vill nefndin að Norðurlönd verði áfram í fararbroddi.

„Ef við getum sameinast um reglur fyrir framleiðendur á vefnaðarvöru getum við skapað betri forsendur fyrir hringrásarnýtingu vefnaðarvöru á Norðurlöndum. Við getum minnkað umhverfisáhrifin í heild og auk þess stutt við sjálfbæra framleiðslu á gæðavefnaðarvöru á svæðinu,“ segir Tove Elise Madland, formaður nefndarinnar.

Betri skilyrði fyrir sjálfbært efni

Með tillögunni vill nefndin meðal annars skapa betri skilyrði fyrir sjálfbærar ullarafurðir á borð við ull og leður sem framleiddar eru á Norðurlöndum og um leið verri skilyrði fyrir plastefni á borð við nælon, pólíester og akríl.

Ör vöxtur vefnaðarvöruiðnaðarins er að stórum hluta byggður á gerviefnum en samkvæmt SÞ hefur hlutfall þeirra vaxið úr 20 prósentum af heildarframleiðslunni í 62 prósent á síðustu 20 árum.

Tryggir réttláta samkeppni

Eitt markmiðið með tillögunni er að hinir litlu markaðir á Norðurlöndum geti í sameiningu leikið stærra hlutverk í að beina vefnaðarvöruiðnaðinum inn á sjálfbærari brautir.

Framleiðendaábyrgð nær einnig til fatainnflutnings einstaklinga í gegnum netverslun og á því að skila sér í sanngjarnara samkeppnisumhverfi fyrir norræna vefnaðarvöruframleiðslu. Tillögunni er einnig ætlað að stuðla að lausn vandans sem felst í að vefnaðarvöruúrgangur sem fluttur er til lágtekjulanda utan ESB endar á stórum sorphaugum.

Tillagan verður tekin fyrir á hinu svokallaða þemaþingi dagana 8.–9. apríl þar sem Norðurlandaráð í heild sinni mun taka afstöðu til hennar. Verði tillagan samþykkt verður hún að tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna.

Tillagan kom upphaflega frá flokkahópi hægrimanna í Norðurlandaráði.