Stjórnsýsluhindranaráðið fagnar nýjum Eyrarsundssamningi

07.05.24 | Fréttir
Anders Ahnlid leder Gränshinderrådets kickoff i Köpenhamn februari 2024.

Anders Ahnlid leder Gränshinderrådets kickoff i Köpenhamn februari 2024.

Ljósmyndari
Lisa Wikstrand / Norden.org

Anders Ahnlid er formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2024.

Svíþjóð og Danmörk hafa náð samkomulagi um nýjan Eyrarsundssamning sem ætlað er að einfalda daglegt líf fyrir bæði starfsfólk sem ferðast yfir landamæri vegna vinnu og atvinnuveitendur þess. Anders Ahnlid, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins, fagnar þessum fréttum og vonar að þær ryðji brautina fyrir einfaldari skattareglur á Norðurlöndum í heild.

„Endurnýjun Eyrarsundssamningsins er góð frétt fyrir allar þær þúsundir manna sem ferðast yfir sundið á milli Svíþjóðar og Danmerkur vegna vinnu sinnar og fyrir þau fyrirtæki sem halda út starfsemi beggja vegna landamæranna. Þetta sýnir að löndin geta náð saman, líka í flóknum skattamálum. Nú er komið að því að ganga enn lengra og semja líka um einfaldari skattareglur á milli hinna Norðurlandanna,“ segir Anders Ahnlid.

Anders Ahnlid bendir á úttekt sem Stjórnsýsluhindranaráðið lét gera í fyrra þar sem bent er á nokkur svið sem eru til trafala á norrænum vinnumarkaði og ljóst er að þau sem ferðast til og frá vinnu á milli norrænna landa eða ráða til sín starfsfólk frá öðru norrænu landi þurfa að takast á við óþarfa skriffinnsku og snúnar reglur.

Í versta falli verður það til þess að atvinnurekendur hika við að ráða starfsfólk og launafólk við að taka við starfi handan landamæra og löndin verða þannig af þeim efnahagslegu kostum sem fylgja frjálsri för.

Nýi samningurinn léttir vinnuferðalöngum lífið

Tilgangur hins nýja Eyrarsundssamnings er einkum að einfalda vinnuferðalöngum og vinnuveitendum þeirra lífið og draga úr skriffinnsku. Það á að skila sér í skilvirkari vinnumarkaði á Eyrarsundssvæðinu og skapa forsendur fyrir fleiri störf og aukinn hagvöxt.

Einföldun og minni skriffinnska er jafnframt á meðal þess sem Stjórnsýsluhindranaráðið vill benda norrænu ríkisstjórnunum á varðandi norræna tvísköttunarsamninginn og aðrar skattareglur.

Hinn nýi Eyrarsundssamningur er aðlagaður að vinnumarkaði nútímans. Framvegis á vinnuferðalöngum í auknum mæli að gefast kostur á að vinna heima, í búsetulandi sínu, án þess að það hafi áhrif á skattalega stöðu þeirra. Þessi sveigjanleiki á einnig að vera í boði fyrir opinbert starfsfólk en hingað til hefur það ekki verið raunin.

Hið svokallaða uppbótakerfi á framvegis einnig að ná yfir bætur til opinbers starfsfólks sem ekki greiðir tekjuskatt í búsetusveitarfélagi sínu, ólíkt því sem nú er.

Nú stendur til að hefja tæknilega yfirferð á samningnum og markmiðið er að Svíþjóð og Danmörk undirriti hann sem fyrst til þess að hann geti tekið gildi árið 2025.

Staðreyndir:

- Stjórnsýsluhindranaráðið er óháð nefnd sem stjórnvöld landanna hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. 

- Helsta verkefni Stjórnsýsluhindranaráðsins og er ýta á stjórnvöld og stjórnkerfi norrænu landanna með það fyrir augum að skapa skilyrði fyrir samþætt svæði þar sem íbúar geta á einfaldan hátt flust búferlum, stundað nám og hafið fyrirtækjarekstur þvert á landamæri.

- Vinna ráðsins skiptir sköpum til þess að unnt sé að uppfylla framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna fyrir árið 2030 um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.