Ný norræn skýrsla: Hagvöxtur á Norðurlöndum er mestur á Íslandi

09.02.18 | Fréttir
Idrettsbane
Ljósmyndari
Austris Augusts
Hvað varðar tekjur miðað við höfðatölu saxa Íslendingar á forskot jafnvel Norðmanna og atvinnustig er hvergi hærra í Evrópu en á Íslandi. En ekki stendur allt með blóma því að brottfall úr skóla er jafnframt mest á Íslandi og menntunarstig lægst.

Í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar, State of the Nordic Region, eru lykiltölur frá norrænu löndunum greindar og bornar saman þvert á landamæri og svæði. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að íbúum á Íslandi fjölgaði um 10% á árabilinu 2007 til 2017 sem er yfir meðaltali á Norðurlöndum. Þessi fjölgun hefur orðið þrátt fyrir hlutfallslega færri innflytjendur en annars staðar á Norðurlöndum, þar sem fólksfjölgunin helgast að mestu leyti af alþjóðlegum fólksflutningum.

Í tengslum við skýrsluna er einnig unnið svonefnt Regional Potential Index en sú vísitala mælir hve góðar framtíðarhorfur allra 74 stjórnsýslusvæða Norðurlanda eru í samanburði við hvert annað. Íslensku svæðin rjúka upp listann ásamt þeim færeysku og að hluta til sænsku. Stokkhólmur er það svæði Norðurlandanna sem stendur sterkast allra. Aftur á móti falla sum svæði í Noregi langt niður listann, en Finnland vermir þó botnsætið þegar á heildina er litið.

Nordregio, rannsóknarstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðaþróun og skipulag, annast samantekt skýrslunnar State of the Nordic Region sem kemur út annað hvert ár.

- Það kemur ekki á óvart að við sjáum greinilegan vöxt á Íslandi í samanburði við önnur norræn lönd, að hluta til vegna þess að efnahagsáfallið kom hart niður þar og að hluta til vegna innspýtingar í ferðaþjónustunni. Má því með sanni segja að þróunin hafi snúist verulega á síðustu árum, segir Kjell Nilsson, forstöðumaður Nordregio, í tengslum við útgáfu skýrslunnar.

Að sjálfsögðu má velta fyrir sér hvort svo mikill hagvöxtur sé sjálfbær. Ef litið er á heildarmyndina gengur samt mjög vel víðast hvar á Íslandi. Það er ekki bara höfuðborgarsvæðið sem á velgengni að fagna eins og sjá má á Regional Potential vísitölunni okkar,  bætir hann við.

Staðan á Norðurlöndum

Sé litið til helstu niðurstaðna í skýrslunni State of the Nordic Region er ánægjulegt að sjá að efnahagurinn jafnt og vinnumarkaðurinn standa betur á Norðurlöndum en í ESB að meðaltali. Í því sambandi gengur norrænu löndunum einnig hlutfallslega vel að laða til sín erlenda fjárfestingu - raunar renna 7% af samtölu beinna erlendra fjárfestinga (FDI) í Evrópu til Norðurlanda, þótt þar búi ekki nema 4% af íbúunum.

Tvennt styrkir efnahaginn: Norðurlönd eru enn sem fyrr meðal þeirra svæða í ESB sem lengst eru komin í stafrænni væðingu og við erum áfram öflugri en nálæg svæði í nýsköpun, þótt það forskot hafi minnkað. Skýrslan sýnir einnig þá miklu framtíðarmöguleika sem felast í lífhagkerfinu, en með því er átt við sjálfbæran vöxt á grundvelli náttúruauðlinda.

Á sumum sviðum aftur á móti hringja tölfræðilegu upplýsingarnar viðvörunarbjöllum: Þrátt fyrir flutning fólks til Norðurlanda, þ. á m. innflytjenda, fer meðalaldur hækkandi, íbúarnir setjast að í kringum stóru bæina - og svo eru áskoranir tengdar aðlögun innflytjenda í atvinnulífinu.

-  State of the Nordic Region er samantekt þekkingar og upplýsinga sem stuðlar að heildarsýn á þróunina á Norðurlöndum og er hjálpartól norrænna valdhafa þegar þeir móta nýjar stefnur. Í skýrslunni er vakin athygli bæði á framförum og áskorunum á mikilvægum samfélagssviðum og þeim gerð skil. Þetta er norrænt samstarf þegar það er sem allra best, segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Staðreyndir:

State of the Nordic Region geymir einstakt safn upplýsinga um Norðurlöndin öll á sviði efnahagsmála, lýðfræðilegra breytinga, vinnumarkaðsmála og menntunar, svo að nokkuð sé nefnt, ásamt sérhönnuðum landakortum til skýringar. Skýrslan er gefin út annað hvert ár á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og segja má að hún mæli hitann á svæðum og sveitarfélögum á Norðurlöndum. Liður í útgáfunni er birting Regional Potential Index - sem Nordregio, rannsóknarstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðaþróun og skipulag, tók saman - en sú vísitala mælir hve góðar horfurnar eru á hverju hinna 74 stjórnsýslusvæða Norðurlanda út frá hefðbundnum samanburðarhæfum tölfræðilegum forsendum.