Skólar ráða úrslitum við aðlögun hælisleitendabarna

19.04.16 | Fréttir
Karin Gaardstedt
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Ástandið í málefnum flóttafólks var í brennidepli á þemaþingi Norðurlandaráðs í Ósló. Flokkahópur jafnaðarmanna hvatti ríkisstjórnir Norðurlanda til að efna til norrænnar ráðstefnu um aðlögun barna hælisleitenda, með sérstakri áherslu á ábyrgð skólanna.

Karin Gaardsted þakkaði norrænu samstarfsráðherrunum fyrir að hafa sagst óska eftir auknu samstarfi um aðlögun flóttafólks á Norðurlöndum, þegar hún lagði fram tillögu flokkahóps jafnaðarmanna á Stórþinginu í Ósló.

„Vil viljum leggja sérstaka áherslu á kennslu barna hælisleitenda og við teljum að allir skólar, einkaskólar þar með taldir, eigi að leggja hönd á plóg í þessu þýðingarmikla aðlögunarverkefni,“ sagði hin danska Gaardsted, fulltrúi í Norðurlandaráði.  

Hinn tiltölulega mikli fjöldi vegalausra barna og ungmenna er á meðal stærstu áskorana sem fylgja auknu streymi flóttafólks til Norðurlanda. Sérlega krefjandi og mikilvægt verkefni felst í því að sjá þessum börnum fyrir kennslu. Norrænir skólar leika ótvírætt lykilhlutverk í aðlögun hinna mörgu barna og ungmenna sem komið hafa til Norðurlanda. Stjórnmálamennirnir í flokkahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði vilja að einkareknir skólar taki ábyrgð á aðlögun hælisleitendabarna til jafns við aðra grunnskóla.

Tillagan verður lögð fram á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í haust.