Yfirlýsing: Norðurlandaráð kallar eftir daglegu lífi án eiturefna

26.03.15 | Fréttir
Nordiska flaggor på Christiansborg
Photographer
Søren Svendsen/Ministerråd
Norðurlandaráð lýsir eftir ákveðnari stefnu um efni og efnavörur í því skyni að koma í veg fyrir að fólk, ekki síst börn, verði fyrir áhrifum heilsuspillandi efna. Evrópusambandinu ber að semja viðmið til að geta greint hormónatruflandi efni. Hætta verður svo fljótt sem verða má notkun efna sem eru á skrá löggjafar ESB um efni og efnavörur (REACH) sem talin eru geta verið hættuleg efni.

Yfirlýsing Norðurlandaráðs um daglegt líf án eiturefna:

Ef vísindaleg óvissa er fyrir hendi ber að styðjast við varúðarregluna í aðgerðum sem miða að því að vernda heilsu fólks, einkum barna. Skortur á grundvallarþekkingu á ekki að koma í veg fyrir að gripið verði til aðgerða. Málið varðar alla Evrópu og því kemur það fyrst og fremst í hlut framkvæmdastjórnar ESB að leggja til aðgerðir til verndar lífi og heilsu almennings. 

Hormónatruflandi efni

Á hverjum degi verða fullorðnir og sérstaklega börn fyrir eitrunaráhrifum fjölmargra efna og efnavara en þau leynast víða, þar á meðal í leikföngum, snyrtivörum, raftækjum, byggingarefnum, matvælaumbúðum og lyfjum. Smáskammta af ýmsum hormónatruflandi efnum og efnavörum er að finna í vörum sem notaðar eru daglega. Saman geta þessi efni haft skaðleg áhrif og er það ástæða þess að hormónatruflandi efni sem og önnur skaðleg efni og efnavörur eru ærið áhyggjuefni.

Meðal annars geta umrædd efni valdið krabbameini í brjóstum og blöðruhálskirtli, spillt gæðum sæðis og valdið því að börn fæðist með vansköpuð kynfæri. Nýlegar rannsóknir sýna ennfremur tengsl milli hormónatruflandi efna og til að mynda athyglisbrests með ofvirkni (ADHD), sykursýki og offitu.

Að mati margra vísindamanna eru engin örugg lægri mörk fyrir hormónatruflandi efni. Meira máli virðist skipta hvenær fólk kemst í snertingu við slík efni en magn þeirra efna sem eitruninni valda. Eitrunaráhrif á fóstur geta því verið dulin þangað til síðar á ævinni og koma jafnvel ekki fram fyrr en hjá næstu kynslóð.

Ný rannsókn sýnir að á ári hverju nemur kostnaður ESB-landanna vegna óvinnufærni og aukinna útgjalda til heilbrigðismála a.m.k. 4,5 milljörðum danskra króna. Þennan kostnað má rekja til eitrunaráhrifa hormónatruflandi efna á fólk. Sú upphæð mun þó líklega aðeins vera toppurinn af ísjakanum.

Mælt er með að notuð séu staðgönguefni ef þau eru í boði enda komi þau í stað annarra og skaðlegra efna. Með því að vísa til staðgönguefna er hugsanlega hægt að taka upp harðari stefnu gegn skaðlegri vörum.

Einnig er mikilvægt að ítreka og herða upplýsingaskyldu framleiðenda.

Löggjöfin

Frelsi Norðurlanda til að móta löggjöf eru settar skorður því löggjafarstarf á þessu sviði er að mestu í höndum ESB. Í því sambandi má benda á REACH-löggjöfina um efni og efnavörur auk ýmissa annarra EB-gerða um notkun slíkra efna.

Það er vandamál hve langan tíma löggjafarstarf Evrópusambandsins tekur og að aðeins hefur tekist að ljúka afgreiðslu á einni eða tveimur af þúsund tilkynningum um efni og efnavörur sem talin eru heilsuspillandi. Þá hafa tafir orðið á grundvallarþáttum í löggjafarstarfinu hjá framkvæmdastjórn ESB, til dæmis að því er varðar þróun viðmiða fyrir greiningu á hormónatruflandi efnum. Herða þarf pólitískar aðgerðir til að hraða þeirri vinnu.

Frekari aðgerða er þörf til að hlífa almenningi við eitrunaráhrifum hormónatruflandi efna!

Norðurlandaráð hvetur því

  • Evrópuþingið til að veita framkvæmdastjórn ESB virkt aðhald varðandi þróun og eflingu löggjafar um efni og efnavörur.
  • Framkvæmdastjórn ESB til að

1) leggja hið fyrsta fram tillögu um almenn viðmið og ennfremur að skýra hvernig hormónatruflandi efni eru skilgreind í löggjöf ESB;

2) breyta reglum um staðlaupplýsingar í ESB-löggjöfinni eftir því sem við á þannig að einnig komi fram upplýsingar um hormónatruflanir;

3) hefja skimanir á efnum sem talin eru hormónatruflandi miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir;

4) innleiða sérstakar prófanir á efnum, sem talin eru hormónatruflandi, í því skyni að mæla hormónatruflandi áhrif þeirra;

5) ryðja brautina fyrir staðgönguefni, það er að skipta skaðlegum efnum út fyrir önnur efni sem valda minni skaða, en það er skref í áttina að strangari stefnu um efni og efnavörur;

6) innleiða reglugerðir með það að markmiði að lágmarka eitrunaráhrif þekktra hormónatruflandi efna á fólk, einkum börn.