Blind - Noregur

Blind (Norge)
Photographer
Thimios Bakatakis

Ágrip

Ingrid hefur nýlega misst sjónina og leitar nú skjóls á heimili sínu þar sem henni finnst hún vera við stjórn, einsömul með eiginmanni sínum og hugsunum. En raunverulegur vandi hennar er innan veggja heimilisins, ekki utan þeirra, og dýpsti ótti hennar og bældir draumórar taka brátt við stjórn.

Rökstuðningur dómnefndar

Eskil Vogt er þekktur fyrir samstarf sitt við Joachim Trier um handritsgerð. Frumraun hans sem kvikmyndaleikstjóri er ákaflega frumleg, hugrökk og skemmtileg mynd um hugmyndaheim blindrar manneskju. Ellen Dorrit Petersen er glæsileg og kraftmikil í hlutverki konu sem einangrar sig með tölvuna sína eftir að hún hefur misst sjónina. Hún notar tölvuna til að skrifa sögu tveggja einstaklinga sem lifa einangruðu lífi sem speglar líf hennar sjálfrar. Athyglisvert handrit Vogts er orðið að leikandi, ögrandi og sjónrænt fallegri mynd og yndislegri og viðkvæmnislegri hugleiðingu.

Leikstjóri/handritshöfundur – Eskil Vogt

Eskil Vogt er fæddur 1974 og útskrifaðist frá hinum virta franska kvikmyndaskóla La FEMIS í París. Tvær af þeim stuttmyndum sem hann gerði í Frakklandi, Une étreinte (Faðmlag, 2003) og útskriftarmynd hans frá 2004, Les étrangers (Hinir framandi), hlutu ýmis alþjóðleg verðlaun.  Vogt er talinn í hópi fremstu handritshöfunda Noregs og er þekktur fyrir samstarf sitt við leikstjórann Joachim Trier við gerð verðlaunamyndanna Reprise (Endurtekning), Oslo, 31. august (2011, tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs) og mynd með ensku tali sem er væntanleg, Louder than Bombs(Háværari en sprengjur). Hann er um þessar mundir að skrifa annað handrit sitt að mynd í fullri lengd sem hann hyggst leikstýra sjálfur.

Vogt og Trier hlutu í sameiningu Aamot-styttuna, verðlaun samtakanna Film & Kino, árið 2007 fyrir „framúrskarandi árangur í norskri kvikmyndagerð“. 

Framleiðandi – Sigve Endresen

Sigve Endresen er fæddur 1953 í Stafangri. Hann er framkvæmdastjóri Motlys, sem stofnað var 1983 og er eitt af helstu kvikmyndaframleiðslufyrirtækjum Noregs.

Á síðustu þremur áratugum hefur hann framleitt tugi kvikmynda og heimildamynda í samstarfi við leikstjóra á borð við Nils Gaup (Misery Harbour), Marius Holst (Øyenstikker) og Gunnar Vikene (Himmelfall). Hann hefur unnið að fimm myndum sem hafa verið tilnefndar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs: Nord (2009) í leikstjórn Rune Denstad Langlos, Oslo, 31. august (2011) í leikstjórn Joachim Triers, Kompani Orheim (2012) í leikstjórn Arild Andresens, Som du ser meg (Eins og þú sérð mig, 2013) í leikstjórn Dag Johan Haugeruds og Blind (2014) í leikstjórn Eskil Vogts. Endresen framleiddi einnig rómaða frumraun Jannicke Systad Jacobsen í kvikmyndagerð, Få meg på, for faen (Komdu mér til, fjandinn hafi það) og sjónvarpsþáttaröðina Buzz Aldrin.Eitt metnaðarfyllsta verkefnið sem nú er á döfinni hjá honum er fyrsta mynd Joachim Triers á ensku, myndin Louder than Bombs með Isabelle Huppert og Gabriel Byrne í aðalhlutverkunum.

Endresen var meðframleiðandi myndar sænska meistarans Jan Troells, Maria Larssons eviga ögonblick (Eilíf augnablik Mariu Larsson) og mynd danska leikstjórans Peter Schønau Fogs Kunsten at græde i kor (Listin að gráta í kór) sem hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2007.

Sem leikstjóri hefur Endresen verið verðlaunaður fyrir heimildamyndir sínar Leve blant løver (Lifa með ljónum) og Store gutter gråter ikke (Stórir strákar gráta ekki). Hann hefur hlotið Aamodt-styttuna, mestu viðurkenningu sem veitt er fyrir störf í norska kvikmyndaiðnaðinum.

Framleiðandi – Hans Jørgen Osnes

Hans-Jørgen Osnes er fæddur 1972. Hann gekk til liðs við framleiðslufyrirtækið Motlys árið 2011. Osnes vann fyrst sem aðstoðarleikstjóri mynda Joachim Triers, Reprise og Oslo, 31. augusti. Hann var jafnframt framleiðandi síðarnefndu myndarinnar.

Mynd Eskild Vogts, Blind, sem hlaut verðlaun fyrir handrit á Sundance-kvikmyndahátíðinni árið 2014, er önnur myndin í fullri lengd sem hann framleiðir. Hann vinnur sem stendur að fyrstu kvikmynd leikstjórans Aasne Vaa Greibrokk, Alt det vakre (Allt það fallega).

Hans-Jørgen Osnes var valinn í hóp evrópskra „framleiðenda á uppleið“ (Producers on the Move) á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2013.

Grunnupplýsingar um myndina

Frumtitill Blind

Leikstjóri: Eskil Vogt

Handritshöfundur: Eskil Vogt

Framleiðandi: Hans-Jørgen Osnes, Sigve Endresen

Í aðalhlutverkum: Ellen Dorrit Petersen, Henrik Rafaelsen, Vera Vitali, Marius Kolbenstvedt

Framleiðslufyrirtæki: Motlys

Lengd: 96 mínútur

Dreifing innanlands: Norsk Filmdistribusjon

Alþjóðleg dreifing: Versatile Films

Dómnefndarmenn

Silje Riise Næss, Britt Sørensen, Kalle Løchen