Blindsone – Noregur

Billede fra “Blindsone” (Norge) - Pia Tjelta
Photographer
Nordisk Film Production
Norska kvikmyndin „Blindsone“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Blindsone er átakanleg saga af móður sem reynir sitt besta til að skilja geðsjúkdóm dóttur sinnar. Myndin er einstaklega næm athugun á þeim gráu svæðum – eða blindu blettum – sem geta torveldað skilning foreldra eða samfélagsins á geðrænum vandamálum, en einnig er varpað ljósi á þann vanda sem skapast þegar samfélag nútímans telur það eitt eftirsóknarvert sem tengist hamingju og velgengni fólks. Hvernig opnum við á erfiðar hugsanir og vandamál þegar ekki er ætlast til að við sýnum umheiminum neitt annað en ímynd fullkomnunar?

Rökstuðningur dómnefndar

Blindsone er átakamikil saga sem hefst með kynningu á raunsæjum heimi, fer þaðan yfir í hneykslandi og tortryggilegar aðstæður og lýkur með endurlausn aðalpersóna sem hafa verið þjakaðar af áföllum og angist. Öll frásögnin rúmast í einni samfelldri senu, sem skilar sér í áhrifamiklum leik, myndatöku og hljóðhönnun. Tuva Novotny leikstýrir hér sinni fyrstu kvikmynd og tekst að nýta tæki og tól formsins með besta móti í þágu frásagnarinnar.

Handritshöfundur/leikstjóri – Tuva Novotny

Tuva Novotny (1979) hóf leikferil sinn 16 ára gömul. Hún hefur leikið í fjölda mynda og þáttaraða, svo sem myndunum Krigen eftir Tobias Lindholm, sem hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna, Annihilation eftir Alex Garland og Borg vs. McEnroe eftir Janus Metz, og sjónvarpsþáttaröðum á borð við Crimes of Passion, Dag og Nobel.

Hún þreytti frumraun sína í leikstjórn árið 2010 með þáttaröðinni Dag fyrir norsku stöðina TV2, auk nokkurra þátta af Netflix-þáttaröðinni Lilyhammer og handritaskrifa fyrir þáttaröðina Rot í norska ríkissjónvarpinu, NRK.

Blindsone er fyrsta myndin í fullri lengd sem hún skrifar og leikstýrir. Myndin er tekin upp í einni samfelldri töku í rauntíma og hefur hlotið ýmis verðlaun á alþjóðlegum hátíðum, svo sem Silver Shell-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki (Pia Tjelta) á hátíðinni í San Sebastián, FIPRESCI-verðlaun í Gautaborg, New Talent Grand PIX á CPH PIX í Kaupmannahöfn og verðlaun sem besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Bratislava. Myndin vann einnig til verðlauna sem besta myndin og fyrir bestu leikkkonu í aðalhlutverki á verðlaunahátíð norskra kvikmyndagagnrýnenda.

Novotny leikstýrði einnig sænsku myndinni Britt-Marie var här, sem byggð er á metsölubók eftir Fredrik Backman.

Framleiðandi – Elisabeth Kvithyll

Elisabeth Kvithyll (1985) starfar hjá Nordisk Film Production í Noregi.

Síðan hún lauk námi við Norska kvikmyndaskólann árið 2012 hefur hún framleitt verðlaunastuttmyndirnar Å vokte fjellet eftir Izer Aliu (tilnefnd til Óskarsverðlauna nemenda 2013, besta stuttmyndin á Amanda-verðlaununum 2012) og Ja vi elsker eftir Hallvar Witzø („Special Mention“ á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2014).

Fyrsta mynd hennar í fullri lengd, Blindsone, hefur átt velgengni að fagna bæði í heimalandinu og alþjóðlega síðan hún var frumsýnd í kvikmyndahúsum í ágúst 2018.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Blindsone

Leikstjórn: Tuva Novotny

Handrit: Tuva Novotny

Framleiðandi: Elisabeth Kvithyll

Aðalhlutverk: Pia Tjelta, Anders Baasmo Christiansen, Oddgeir Thune

Framleiðslufyrirtæki: Nordisk Film Production

Lengd: 102 mínútur

Dreifing innanlands: Nordisk Film Distribution

Alþjóðleg dreifing: TrustNordisk