Djúpið (The Deep) - Ísland

Djúpið (The Deep) - Island

Ágrip

Á kaldri mars nóttu árið 1984, sökk fiskibátur með allri áhöfn nokkrar mílur út af suðurströnd Íslands. Einn skipverji komst af á undraverðan hátt. Eftir sex klukkutíma baráttu í sjónum, náði ungi maðurinn landi, en komst að raun um það að framundan var lífshættuleg hraunbreiða.

Rökstuðningur dómnefndar

Djúpið sem byggir á sannri sögu er frásögn af miklum harmi og stórkostlegri hetjudáð einstaklings og gaumgæfir á þróttmikinn hátt líkama og sál mannsins. Kvikmyndatakan er grípandi í gegnum alla myndina og gegnsýrir Djúpið af hrikalegum en jafnframt fallegum myndum af landi, hafi og dýpinu undiryfirborðinu. Frammistaða Ólafs Darra Ólafssonar í aðalhlutverkinu er afar eðlileg og tilfinningaþrungin og studdur af öflugum meðleikurum dregur hann áhorfendur inn í hræðilega lífsreynslu aðalpersónunnar. Leikstjórn Baltasars Kormáks endurspeglar átakamikla baráttu manns og náttúru. Þróttmikill stíll hans, eflist af leiðarstefi sem er séð ofanfrá og sýnir hversu viðkvæm og lítil mannskepnan er, þar sem henni er rústað af miskunnarlausum náttúruöflum, sem bætir goðsagnakenndri vídd við þessa sögu um einstaka björgun.

Um myndina

Djúpið byggir á raunverulegu atviki sem gerðist við Ísland árið 1984, þegar lítill fiskibátur sökk við Vestmannaeyjar um miðjan vetur og allir í áhöfninni nema einn fórust. Sagan bjó um sig í huga Baltasars Kormáks og Íslendinga allra. Árið 2008, þegar fjármálakreppan var um það bil að knésetja Ísland, sá Baltasar leikritið „Djúpið“ eftir Jón Atla Jónasson leikskáld. Hann fann sig knúinn til að nota sögu þess eina sem komst af sem myndlíkingu fyrir baráttuanda íslensku þjóðarinnar.

Ólafur Darri Ólafsson var fenginn til að leika aðalhlutverkið  og Djúpið var kvikmyndað við erfiðar aðstæður í Atlantshafinu til þess að gera myndina eins raunverulega og mögulegt var.

Myndin kom til greina við Óskars tilnefningar árið 2013 í flokki bestu erlendu mynda og hlaut 11 Eddu verðlaun, sem er met, m.a. fyrir bestu mynd, bestu leikstjórn og besta leikara í aðalhlutverki. Myndin hefur verið seld til nær 30 landa, þar á meðal Þýskalands, Frakklands, Benelúx landanna, Bandaríkjanna og Brasilíu.

Handritshöfundur-Leikstjóri-Framleiðandi, Baltasar Kormákur

Djúpið er fimmta mynd Baltasars Kormáks sem tilnefnd er til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og sú fjórða sem hann skrifar handrit að og leikstýrir.

Hinn fjölhæfi Baltasar Kormákur sem er fæddur á Íslandi árið 1966, hefur hlotið mikla athygli á alþjóðavettvangi og hefur byggt upp orðspor sem leikstjóri með viðskiptavit. Hann vinnur jöfnum höndum á Íslandi og í Hollywood.

Hann útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands árið 1990 og fékk þegar starf hjá Þjóðleikhúsinu þar sem hann starfaði til 1997.

Árið 1998 stofnaði hann framleiðslufyrirtæki sitt, Blueeyes Productions, til þess að einbeita sér að skrifum, leikstjórn og kvikmyndaframleiðslu. Fyrsta kvikmynd hans 101 Reykjavík með Victoria Abril í aðalhlutverki var frumsýnd árið 2000 og hlaut Discovery verðlaunin í Torontó og kom nafni hans á kortið á alþjóðavettvangi. Árið 2010 var hann valinn einn af „10 Directors to Watch“ af Variety, ásamt Christopher Nolan og Alejandro Inárritu. Árið 2002 leikstýrði hann Hafinu og þremur árum seinna fór hann til Hollywood til að gera A Little Trip to Heaven með Forest Whitaker í aðalhlutverki.

Árið 2007 gerði hann vinsælustu íslensku mynd allra tíma, Mýrina, sem byggði á glæpasögu Arnaldar Indriðasonar, sem tilnefnd var til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, rétt eins og næsta mynd hans, gamanmyndin Brúðguminn árið 2008. Sama ár lék hann í og framleiddi Reykjavík-Rotterdam sem hann endurgerði fyrir Bandaríkja- og alþjóðamarkað árið 2012 með titlinum Contraband. Í aðalhlutverki myndarinnar, sem framleidd var af Universal, var Mark Wahlberg. Samstarfið við bandarísku stjörnuna hélt áfram í 2 Guns (verður frumsýnd í Bandaríkjunum í ágúst 2013) og Wahlberg framleiddi síðan HBO sjónvarpsþáttinn The Missionary sem Baltasar Kormákur leikstýrði vorið 2013. Meðal komandi stórverkefna er Everest með Christian Blake í aðahlutverki, sem framleidd verður af Working Title.

Heimafyrir hyggst Baltasar Kormákur gera mynd eftir glæpasögu Arnaldar Indriðasonar Grafarþögn, sem verður sjálfstætt framhald Mýrinnar.

Baltasar Kormákur stofnaði nýlega sjónvarpsþáttaframleiðslufyrirtækið Blueeyes Vision, þar sem hann vinnur að því að gera þætti á ensku sem byggja á hinum vinsæla EVE Online tölvuleik og glæpaþáttaröðina Trapped.

Handritshöfundur, Jón Atli Jónasson

Jón Atli Jónasson, sem er fæddur árið 1972, hætti í skóla og vann sem sjómaður, pizzabakari, þungarokksplötusnúður og byggingaverkamaður. Árið 2001 kom út smásagnasafn hans Brotinn taktur sem fjallar um fólk sem leitar að hlutum í snjónum. Árið 2002 sigraði hann í leikritasamkeppni á Íslandi og síðan hefur hann skrifað handrit fyrir leiksvið, útvarp, sjónvarp og kvikmyndir. Mörg þeirra hafa hlotið lof gagnrýnenda heima og á alþjóðavettvangi.

Fyrsta reynsla hans af kvikmyndum var aukahlutverk í 101 Reykjavík eftir Baltasar Kormák. Hann lék í nokkrum öðrum myndum, en meginstarf hans við kvikmyndir frá 2002 hefur verið við handritsgerð. Meðal kvikmyndahandrita hans eru Eleven Men Out (2005) eftir Robert Douglas, Blóðbönd eftir Árna Óla Ásgeirsson, sem tinefnd var til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2006, spennumyndin Frost eftir Reyni Lyngdal (2012) og Falskur fugl eftir Þór Ómar Jónsson.

Meðal annarra mynda sem byggðar eru á leikritum Jóns Atla Jónassonar auk Djúpsins er Brim sem tilnefnd var til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011.

Framleiðandi, Agnes Johansen

Agnes Johansen sem er fyrrverandi barnaþáttastjórnandi, var dagskrárstjóri barnaefnis hjá Stöð 2 frá 1991 til 1996. Frá 1996 til 1997 var hún sjálfstætt starfandi við ýmis verkefni í Póllandi og Bretlandi þar sem hún gerðist framleiðslustjóri hjá Saga Film. Hún var fulltrúi Íslands hjá Eurimages og tók þátt í þróun og kynningu á ýmsum verkefnum, þar á meðal Latabæ eftir Magnús Scheving.

Hún kynntist Baltasar Kormák árið 2001 og vann sem framleiðandi á kvikmynd hans Hafinu. Ári seinna gekk hún til liðs við Blueeyes Productions. Meðal þeirra verkefna sem hún hefur framleitt eða meðframleitt fyrir Blueeyes eru Stormviðri eftir Sólveigu Anspach, Dís eftir Silju Hauksdóttur, Sumarlandið eftir Grím Hákonarson, A Little Trip to Heaven, Mýrin, Brúðguminn, Reykjavík-Rotterdam og Djúpið eftir Baltasar Kormák. Um þessar mundir er Agnes Johansen að vinna við framleiðslu á Fúsa, nýrri íslenskri mynd Dags Kára og við undirbúning fyrstu myndar Barkar Sigþórssonar Mules.

Agnes Johansen var tilnefnd sem „Producer on the Move“ í Cannes 2004.

Helstu framleiðsluupplýsingar

Upphaflegur titill: Djúpið

Leikstjóri: Baltasar Kormákur

Handritshöfundar: Jón Atli Jónasson, Baltasar Kormákur

Framleiðendur: Agnes Johansen, Baltasar Kormákur

Aðalhlutverk: Ólafur Darri Ólafsson, Jóhann G. Jóhannsson

Framleiðslufyrirtæki: Blueeyes Productions

Lengd: 93 mín

Dreifing innanlands: Sena

Alþjóðleg dreifing: Bac Films

Fulltrúar í dómnefnd

Kristín Jóhannesdóttir, Björn Ægir Nordfjörd, Hilmar Oddsson