Eva Runefelt

Eva Runefelt
Photographer
Caroline Andersson
Eva Runefelt: Minnesburen. Ljóð, Bonniers, 2013

Þar sem við höfum verið

er þar sem við erum

 

Vegur

rakleiðis í gegn,

aftur og aftur

Pensill og bogi

fara í gegnum okkur

þar sem við höfum verið og erum stöðugt

 

Segja má að nokkrar ljóðlínur nærri lokum ljóðasafns Evu Runefelts, Minnesburen, séu samantekt á efni bókarinnar. Fjallað er um minningar, að vera stöðugt til staðar í núinu og samtímis dvelja í því sem var. Við berum alltaf lífið allt með okkur og innra með okkur; barnæskuna með foreldrum og systkinum og nánast leyndardómsfulla og samtímis ákaflega skynsamlega nálgun gagnvart því sem gerist, og það er æskan og fullorðinslífið sem sankar sífellt að sér meiri reynslu, sýn, minningum um lifandi og látna. Líf okkar verður æ auðugra, æ margþættara, það verður sífellt stærra en jafnframt sífellt meira kraftaverk: Við erum til, með þetta innra með okkur.

Eva Runefelt er fædd 1953 og á mikinn ritferil að baki. Hún gaf út fyrstu bók sína 1975 og hefur samtals gefið út tólf bækur, að þessari síðustu meðtalinni. Hún hóf feril sinn sem skáldsagnahöfundur með bókinni I Svackan en er þó einkum þekkt fyrir ljóðagerð sem birst hefur í ljóðasöfnum á borð við En kommande tid av livet (1975), Augusti (1981), Mjuka mörkret (1997) og I ett förskringrat nu (2007). Öll þessi verk eru ákaflega næm fyrir hræringum sálarinnar í samhljómi við umhverfið; náttúruna, borgarumhverfið, annað fólk, og fjalla munúðarfullt og að því er virðist á einfaldan hátt um erfiðustu þætti lífsins; ást, dauða, minningar.

Minnesburen sækir að hluta yfir í aðrar bókmenntagreinar. Hún skiptist í þrjá hluta: „Barndomligt“ (Barnæskulegt), „Gåendeskrivandet“ (Gönguskriftirnar) og „Ögonblickligt“ (Á augabragði). Í fyrstu tveimur hlutunum eru prósaljóð eða stutt prósabrot, en þriðji hlutinn fylgir í meira mæli hefðbundinni ljóðrænni gerð. En auðvitað má greina stíl Evu Runefelt alls staðar í bókinni. Hér má finna hæglátan tón sem þó felur í sér sterka ástríðu, eitthvað sem lítur út fyrir að vera hversdagsleiki sem brotinn er upp með myndmáli sem er óvænt og ferskt, sem gefur lesandanum nýja og á einhvern hátt betri sjón og gerir þess vegna lesturinn að upplifun sem er mögnuð, nánast eins og tónlist eða myndlist.

Minnesburen er ákaflega falleg og grípandi bók, endurlit á barnæskuna í ljósi ævilangrar reynslu. Eva Runefelt fullkomnar hér þann hluta höfundarferils síns sem fjallar um stóru heildirnar og samtímis tekur hún stórt skref framávið sem ljóðskáld. Hún sýnir að ritstörf eru list hreyfingarinnar, hvort heldur er það sem snertir innra líf bókarinnar og það sem varðar tjáninguna, mótunina.

Arne Johnsson