Frida Nilsson

Frida Nilsson
Photographer
Mia Carlsson
Frida Nilsson: Jagger, Jagger. Skáldsaga, Natur & Kultur, 2013

Jagger, Jagger eftir Fridu Nilsson fjallar um það að vera utanveltu. Við kynnumst Bengt sem er átta ára en er lagður í einelti af hinum börnunum í hverfinu og fær ekki að vera með þeim í leikjum. Þau flæma hann upp í tré, henda morgunkorni inn um bréfalúguna heima hjá honum og henda boltanum hans í ána. Allt á meðan fullorðna fólkið er sofandi eða sér ekki til.

Einn daginn loka krakkarnir Bengt inni í kústaskáp og þar hittir hann hundinn Jagger Svensson, sem er í matarleit. Jagger er flækingshundur sem leitar sér skjóls í gámum og þannig eiga þeir það sameiginlegt að vera utanveltu. Fljótlega ákveða þeir að hefna sín á kvölurum Bengts.

Jagger, Jagger er í senn kímin og alvarleg frásögn af vináttu og einmanaleika fyrir börn í fyrstu bekkjum grunnskóla. Sagan er full af samkennd og dýpt og sameinar beitta samfélagsrýni og lipurt málfar um leið og hún er blessunarlega laus við umvöndunartón. Svarthvítar myndskreytingar Lottu Geffenblad draga skýrt fram hve varnarlausar persónurnar geta verið.

Jagger, Jagger hefur hlotið lof gagnrýnenda jafnt sem lesenda. Gagnrýnandinn og rithöfundurinn Andreas Palmaer setti Jagger, Jagger efst á lista sinn yfir bestu barna- og unglingabækur ársins 2013 í blaðinu Dagens Nyheter og taldi hana best skrifuðu barnabók ársins. Sama ár hlaut hún tilnefningu til August-verðlaunanna.

Frida Nilsson er barnabókahöfundur og þýðandi en hefur einnig skrifað handrit fyrir útvarp og sjónvarp, lesið inn á teiknimyndir, haldið leiklistarnámskeið fyrir börn og séð um barnatímann Hjärnkontoret í sænska sjónvarpinu. Fyrsta bók hennar, Kråkans otroliga liftarsemester, kom út 2004. Síðan hefur hún gefið út fjölda verka sem hlotið hafa lof og athygli. Bækurnar fjórar um stúlkuna Hedvig eru byggðar á barnæsku höfundarins. Jagger, Jagger er í flokki þriggja bóka sem allar fást við einhverja birtingarmynd þess að vera utanveltu. Hinar tvær eru Apstjärnan og Jag, Dante och miljonerna.

Bækur Fridu Nilsson hafa verið þýddar á tíu tungumál og hefur einkum Apstjärnan vakið athygli víða um heim. Hún hlaut frönsku bókmenntaverðlaunin Les Olympiades 2013, var tilnefnd til Deutscher Jugendliteraturpreis í Þýskalandi 2012 og Prix Tam-Tam „J'aime Lire“ 2013. Nilsson hlaut einnig verðlaun sænskra bóksala 2004 og hefur verið tilnefnd tvisvar til August-verðlaunanna; fyrir Jagger Jagger 2013 og fyrir Hedvig och Max-Olov2006. Árið 2014 hlaut Frida Nilsson Astrid Lindgren-verðlaunin, sem veitt eru af forlaginu Rabén & Sjögrens.