Handhafi Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2014

Håkon Øvreås och Øyvind Torseter
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Norski rithöfundurinn Håkon Øvreås og Øyvind Torseter myndskreytir tóku á móti Barna- og unglingabókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs 2014 fyrir bókina „Brune“ við verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsundum danskra króna. Þau voru afhent af verðlaunahafa síðasta árs, Seita Vuorela, í ráðhúsinu í Stokkhólmi. Hún las jafnframt upp rökstuðning dómnefndarinnar:

Rökstuðningur

„Brune er hlý og sterk saga af vináttu og hugrekki. Hún er full af hugvitssemi og töfrum hversdagslífsins. Þetta er skemmtileg frásögn af því hvernig er að vera framtakssamur lítill strákur þegar stríðnispúkarnir sem ofsækja mann gefast ekki upp, en þetta er líka bók um söknuð og það að standa andspænis dauðanum – og því er fallega lýst án óþarfrar viðkvæmni. Samtölin eru trúverðug og skemmtileg. Setningarnar eru einfaldar en oft býr meira að baki en virðist við fyrstu sýn. Yfirnáttúrulegum þáttum er fléttað inn á snjallan og eðlilegan hátt.

Myndskreytingarnar undirstrika stemmninguna og lágstemmdan húmorinn í textanum. Farið er sparlega með litina en þeir eru notaðir á áhrifaríkan hátt.

Sem barnabók fyllir Brune upp í tómarúm sem er á milli bóka fyrir yngstu börnin og unglingabóka. Þetta er góð frásögn á sígildan mælikvarða, en um leið hjálpar hún til við að endurnýja norska og norræna frásagnarhefð fyrir börn.“