Hvítur, hvítur dagur – Ísland

Billede fra “Hvítur, hvítur dagur” (Island) - Ingvar Sigurðsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir
Ljósmyndari
Join Motion Pictures/H. Pálmason
Íslenska kvikmyndin „Hvítur, hvítur dagur“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Sögusviðið er bær austur á fjörðum. Lögreglustjóra í leyfi frá störfum fer að gruna að eiginkona hans, sem lést í hræðilegu slysi tveimur árum áður, hafi átt í ástarsambandi við annan mann í bænum. Þráhyggja lögreglustjórans fyrir að komast að hinu sanna stigmagnast smám saman og að lokum er óumflýjanlegt að honum og hans nánustu verði stofnað í hættu. Þetta er saga af sorg, hefnd og skilyrðislausri ást.

Rökstuðningur dómnefndar

Í Hvítum, hvítum degi fjallar leikstjórinn Hlynur Pálmason um sálarkreppu miðaldra lögreglustjóra sem missir eiginkonu sína sviplega. Ingimar er ófær um að gefa sig sorginni á vald og verður smám saman að skapillum einbúa sem leggur enga rækt við persónuleg tengsl, að frátöldu hjartnæmu sambandi við dótturdóttur sína. Karlmennskan er áberandi stef í myndinni en Ingimar er fjötraður af eigin vanmætti til að eiga afdráttarlaus samskipti við samstarfsfólk sitt, sem og dóttur sína og dótturdóttur, sem vilja sækja til hans samúð og stuðning á tímum mikillar sorgar. Sálarlíf Ingimars endurspeglast í sjónrænni frásagnaraðferð myndarinnar sem er í senn kynleg og ljóðræn. Austfjarðaþokan læðir sér niður fjallshlíðarnar og vofir yfir tilveru Ingimars líkt og draugur eða prísund. Viðsjált eðli þokunnar hefur verið umfjöllunarefni margra af helstu listamönnum Íslands og nærvera hennar vísar þannig í tiltekna skynjun sem einkennir íslenska list.

Þungamiðja myndarinnar er áhrifamikill leikur Ingvars E. Sigurðssonar sem hins syrgjandi lögreglustjóra. Frammistaða hans sýnir þögla og djúpa örvæntingu Ingimars með hægum og öguðum hætti sem aðeins er á færi reyndustu leikara.  

Handritshöfundur/leikstjóri – Hlynur Pálmason

Hlynur Pálmason (1984) er myndlistarmaður og kvikmyndagerðarmaður. Eftir að hafa lagt stund á myndlist ákvað Hlynur að snúa sér að kvikmyndagerð og hefja nám við Kvikmyndaskóla Danmerkur. Útskriftarmynd hans, stuttmyndin En maler (2013), vann til verðlauna sem besta stuttmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Óðinsvéum og var tilnefnd til hinna dönsku Robert-verðlauna. Stuttmynd hans Seven Boats (2014) var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto. Fyrsta mynd Hlyns í fullri lengd, Vetrarbræður (2017), átti mikilli velgengni að fagna og hlaut yfir 30 alþjóðleg verðlaun, svo sem fyrir bestu leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Þessalóníku, verðlaun sem besta mynd og fyrir besta leikara í aðalhlutverki (Elliott Crosset Hove) á kvikmyndahátíðinni í Vilníus og fyrir bestu kvikmyndatöku á evrópsku kvikmyndahátíðinni í Seville. Myndin hlaut níu dönsk Robert-verðlaun, meðal annars sem besta myndin. Hún var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Önnur mynd Hlyns í fullri lengd, Hvítur, hvítur dagur, var heimsfrumsýnd á gagnrýnendaviku í Cannes þar sem Ingvar E. Sigurðsson hlaut Rising Star-verðlaunin, sem veitt eru af Louis Roederer Foundation.

Framleiðandi – Anton Máni Svansson

Anton Máni Svansson (1984) er meðeigandi í reykvíska framleiðslufyrirtækinu Join Motion Pictures ásamt Guðmundi Arnari Guðmundssyni, handritshöfundi, leikstjóra og framleiðanda. Anton Máni nam sálfræði og handritaskrif við Háskóla Íslands. Síðan hann stofnaði Join Motion Pictures árið 2007 hefur hann lagt áherslu á árangursríkt samstarf við hæfileikaríka handritshöfunda og leikstjóra, svo sem Guðmund Arnar Guðmundsson og Hlyn Pálmason.

Fyrsta mynd Guðmundar Arnars í fullri lengd, Hjartasteinn, hlaut yfir 30 alþjóðleg verðlaun, svo sem áhorfendaverðlaun Politiken á CPH PIX og Edduverðlaunin fyrir bestu leikstjórn. Hjartasteinn var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Anton Máni var meðframleiðandi Seven Boats, stuttmyndar Hlyns Pálmasonar, og Vetrarbræðra, fyrstu myndar Hlyns í fullri lengd, sem hlaut mikið lof og var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Hann framleiddi einnig Hvítan, hvítan dag eftir Hlyn Pálmason, sem var valin til sýningar á gagnrýnendaviku í Cannes árið 2019.

Árið 2017 hlaut Anton Máni Lorens-verðlaunin (ásamt öðrum) sem besti framleiðandi fyrir kvikmyndina Hjartastein. Sama ár var Anton Máni valinn „Producer on the Move“ á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Hvítur, hvítur dagur

Leikstjórn: Hlynur Pálmason

Handrit: Hlynur Pálmason

Framleiðandi: Anton Máni Svansson

Aðalhlutverk: Ingvar E. Sigurðsson, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hilmir Snær Guðnason

Framleiðslufyrirtæki: Join Motion Pictures

Lengd: 109 mínútur

Dreifing innanlands: Sena

Alþjóðleg dreifing: New Europe Film Sales