Iiro Rantala

Iiro Rantala
Photographer
Gregor Hohenberg
Iiro Rantala er á meðal þeirra 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Iiro Rantala er líklega sá finnski djasstónlistarmaður sem þekktastur er alþjóðlega. Auk starfa sinna sem tónskáld og píanóleikari, bæði á sviði djass og sígildrar tónlistar, hefur Rantala samið tónlist fyrir ótal leikverk og bíómyndir. Hann er þjóðþekktur í Finnlandi, þar sem hann hefur stýrt eigin þáttum í sjónvarpi og útvarpi. Dagblaðið Süddeutsche Zeitung skrifaði þetta um hann nýlega: „Iiro Rantala er nú, fremur en nokkru sinni fyrr, að spila það sem hann nýtur mest. Hárfín fjölbreytnin í hljómi hans og það ímyndunarafl sem einkennir stef hans eru ógleymanleg. Rantala kann að hrífa hlustendur með sér, vera trúður og töframaður, heillandi snillingur, húmoristi sem fer sínar eigin leiðir.“

Á síðastliðnum árum hefur hróður Rantala vaxið ört utan Finnlands og hefur hann sent frá sér fjölda athyglisverðra hljómplatna, svo sem einleiksplötuna Lost Heroes, plötu með túlkun Rantala á tónlist John Lennon sem ber heitið My Working Class Hero, og plötuna How Long Is Now? í samstarfi við fjölþjóðlegt tríó þekktra listamanna. Hvert og eitt þessara verka felur í sér merkingarþrungna og sérstæða staðhæfingu. Iiro Rantala hefur hlotið hin þýsku ECHO-verðlaun, verðlaun þýskra tónlistargagnrýnenda, finnsku Emma-verðlaunin og Pro Finlandia-orðuna.