Norrbotten Neo

Norrbotten Neo
Photographer
Marie Lundgren
Norrbotten Neo er á meðal hinna 13 sem tilnefnd eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur:

Kynni af listrænni samtímatónlist geta verið hrífandi fögur og byltingarkennd upplifun fyrir hlustandann. Slík upplifun krefst þó tónlistarfólks sem helgað hefur líf sitt því að túlka hinar fjölmörgu tónlistarhefðir nútímans og fága getu sína til að ljá tónum, takti og hljómum tiltekið innihald og stefnu, svo að tónlistin verði nokkurs konar leikhús eyrans með síbreytilegum litum og hugarástandi. Til þess þarf tónlistarfólk sem hefur stórkostlega tækni á valdi sínu, auk hæfni til að fara frá lágstemmdustu hljóðum til ofsafenginna óma, ávallt af sama sannfæringarkrafti og með nánast fullkominni tilfinningu fyrir hinum fjölmörgu tónlistarlegu stefnum okkar tíma. Lýsingarnar hér að framan kunna að hljóma eins og útópía, en í Norrbotten Neo eru tónlistarmenn sem hafa einmitt slíka færni til að bera. Frá stofnun hópsins árið 2007 hefur hann fest sig í sessi sem ein helsta sveit listrænnar samtímatónlistar í Norður-Evrópu. Með Norrbotten í Svíþjóð sem heimavöll sinn hefur sveitin sent frá sér tilkomumikinn fjölda nýrra tónverka í hæsta gæðaflokki. Í gegnum árin hefur Neo unnið ýmis verkefni í nánu samstarfi við tónskáld nær og fjær, jafnt á sviði kammertónlistar sem tónlistar fyrir leiksvið, og gefið út tónlist á geisladiskum (auk stafrænna forma).