Renewcell – Svíþjóð

alt=""
Photographer
Alexander Donka
Nýstárleg aðferð við endurvinnslu á textíl sem skapar forsendur fyrir hringrásarhagkerfi í tískuiðnaðinum.

Renewcell er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Renewcell er leiðandi fyrirtæki í sjálfbærnitækni sem hefur mikil tækifæri til að láta gott af sér leiða með nýstárlegu viðskiptalíkani sínu sem byggist á hringrásarhugsjóninni. Hingað til hafa 60 þúsund tonn af textílúrgangi orðið að Circulose® og þannig lokað hringrásinni í textíliðnaðinum.

Framúrstefnuleg lausn Renewcell er afrakstur rannsókna við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi árið 2012. Árið 2020 valdi TIME Magazine tæknina sem eina af 100 bestu uppfinningum ársins. Aðferðin gengur út á að safna saman og endurvinna textílúrgang, svo sem bómullarföt, og búa til úr honum hágæða uppleysanlegan massa og einkaleyfisvarið textílefni sem nefnist Circulose® sem að lokum verður að nýjum fötum. Í dag er afurð Renewcell eina textílvaran sem endurunnin er úr textíl af óspilltum gæðum en hægt er að nota og aðlaga aðferðina um allan heim.

Renewcell stundar einnig rannsóknarstarf og hefur tekið þátt í mörgum af loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna til þess að ýta undir breytta hegðun og reglur um sjálfbæran tískuiðnað.

Í ljósi nýrra reglna ESB um að ekki megi farga óseldum fatnaði og markmiðsins um að allar textílvörur á markaði ESB skuli vera endurvinnanlegar og að mestu framleiddar úr endurunnu efni má búast við aukinni eftirspurn eftir endurvinnslu á textíl.

Framtök af þessu tagi leika lykilhlutverk í umskiptum yfir í sjálfbærari textíliðnað sem byggist á hringrásarhugsjóninni. Þetta norræna fyrirtæki ryður brautina fyrir hringrásartísku framtíðarinnar.