Viveka Sjögren

Ljósmyndari
Zackarias Bergsteinsson
Viveka Sjögren: Någons bror. Myndabók, Vombat förlag, 2023. Tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

„Og svalirnar eru aldrei eins kaldar og þegar bláu ljósin blikka 
og mömmurnar eru aldrei eins leiðar og þegar þær standa þar og skjálfa úr kulda 
þegar einhver hefur skotið bróður einhvers 
þegar bróðir einhvers fær ekki lengur að verða stór“ 

Í myndabókinni Någons bror („Bróðir einhvers“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) kallar Viveka Sjögren fram fölbleika hlýju í svörtu næturmyrkrinu sem annars er aðeins lýst upp af bláum blikkljósum lögreglu- og sjúkrabíla, þegar lífi enn eins ungmennis hefur lokið of snemma. Fjöldi barna og ungmenna í Svíþjóð verður fyrir barðinu á ofbeldi glæpagengja á einn eða annan hátt. 

 

Það krefst hugrekkis að semja myndabók fyrir börn sem inniheldur allan þann hrylling, ofbeldi og sorg sem fylgir skotárásum gengja í sænsku samfélagi í dag. Viveka Sjögren hefur slíkt hugrekki til að bera. En auk hugrekkis útheimtir þetta einnig færni og styrkan penna, nokkuð sem Sjögren hefur einnig á valdi sínu. Með ljóðrænum textanum tekur Sjögren hönd lesandans og leiðir hann gegnum tár og ótta, en einnig um viðburði sem eru orðnir líkt og helgisiðir. Það að koma saman á torginu, að teikna mynd og leggja fingurheklað band á jörðina. 

 

Það er þó ekki aðeins textinn og viðfangsefnið í Någons bror sem vekur athygli. Myndirnar fanga líka lesandann allt frá fyrstu síðu. Viveka Sjögren skapaði hinar áleitnu myndir í bókinni ásamt börnum í 5. bekk í Fittja-skólanum í Stokkhólmi. Börnin voru beðin að senda inn myndir sem Sjögren nýtti síðan við gerð þeirra teikninga sem nú mæta lesandanum. Augu með stórum tárum sem leka niður kinnar, borgarkennileiti á borð við McDonalds, lögreglubílar, háhýsi og þyrlur – allt rúmast þetta og fær að sjást í bókinni. Það subbulega, það dapurlega, það erfiða – en einnig það sem vekur von og þrá eftir einhverju öðru, öðrum endalokum, kannski einnig eftir möguleikanum á nýju upphafi. Myndirnar eru dimmar og spennuþrungnar þrátt fyrir naífar teikningarnar, eða kannski það sé einmitt þeim að þakka. Með því að flétta teikningar eftir börn saman við eigin myndir hefur Sjögren tekist að skapa listaverk á hverri síðu sem gera bókina afar frumlega. 

 

Einhverjum gæti þótt skrýtið að skrifa barnabók um skotárásir glæpagengja, en Viveka Sjögren færir okkur heim sanninn um að það má treysta á getu barna til að tileinka sér erfið viðfangsefni og vinna úr þeim, svo lengi sem verkið er vel unnið. Þetta sýnir hún svo ekki verður um villst í Någons bror

 

Viveka Sjögren (f. 1966)  er margverðlaunaður rithöfundur sem meðal annars hefur verið tilnefnd til August-verðlaunanna fyrir unglingabókina I den tysta minuten mellan (2011) og hlotið Elsa Beskow-verðlaunin, sem veitt eru fyrir bestu myndabók ársins fyrir börn, fyrir bókina Om du skulle fråga Micha (2016). 

 

Auk ritferils síns hefur Sjögren verið formaður alþjóðaráðs sænska rithöfundasambandsins. Einnig hefur hún setið í stjórn Baltic Writers' Council og European Writers' Council (EWC).