The Danish String Quartet

The Danish String Quartet
Ljósmyndari
The Danish String Quartet
Danish String Quartet er á meðal þeirra 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Á aðeins fáum árum hefur Danish String Quartet (DSQ) orðið eitt helsta nafnið í dönsku og alþjóðlegu tónlistarlífi.

DSQ hefur stimplað sig rækilega inn sem flytjanda sígildra tónverka. Fyrst ber að nefna túlkun og upptökur hópsins á kvartettum Carls Nielsen, tónlistarstórmeistara dönsku þjóðarinnar, sem bera vott um djúpa innlifun og snilli. Hópurinn hefur vakið athygli fyrir yfirburðatúlkun og þroskaðan skilning á verkum fleiri tónskálda, meðal annars Beethovens. DSQ hefur einnig fengist við nýja tónlist og hefur náð að samþætta sígilda og nýrri strauma í seríu fimm hljómplatna þar sem hver og ein inniheldur einn af síðari kvartettum Beethovens, fúgu eftir Bach og einn frægan strengjakvartett eftir nútímatónskáld, svo sem Schnittke, Ligeti, Sjostakovítsj eða Abrahamsen. Fyrir þá fyrstu af þessum plötum hlaut DSQ tilnefningu til alþjóðlegu Grammy-verðlaunanna.

DSQ hefur tekist að ná til breiðari hóps en hinna hefðbundnu unnenda kammertónlistar. Upptaka kvartettsins á verkinu Woodworks, þar sem skandinavísk þjóðlagatónlist nýtur sín í djörfum og gáskafullum útsetningum meðlima, hefur vakið mikla athygli, einkum meðal yngri áheyrenda, og opnað augu þeirra og eyru fyrir undrum kammertónlistarinnar.

Sumarið 2018 frumflutti DSQ harmonikkukvintett eftir Bent Sørensen og í haust mun hópurinn frumflytja Concerto Grosso eftir Thomas Agerfeldt Olesen ásamt Fílharmóníusveit Kaupmannahafnar og Sinfóníunni í Óðinsvéum.

DSQ stendur fyrir eigin árlegu tónlistarhátíð, en þangað er boðið framúrskarandi ungu tónlistarfólki alls staðar að úr heiminum. Þannig hefur hópnum tekist að skapa listgrein sinni nýtt og afar frjótt umhverfi. DSQ á sér dyggan hóp aðdáenda, sem staðfestir að unnt er að auðga og endurnýja hina sígildu kammertónlist á alveg nýjan hátt.

Í tengslum við titil hópsins sem listamaður stöðvarinnar P2 árið 2018 hefur hann staðið fyrir og leikið á tónleikum ásamt stúlknakór danska ríkisútvarpsins (DR) og DR VokalEnsemblet. Að auki hefur hópurinn leikið á hefðbundnari tónleikum, meðal annars ásamt Augustin Hadelich og kvartettunum Ébène og Artemis, og einnig kynnt nýja tónleikaviðburði með tónlist eftir Jennifer Walshe, Bent Sørensen, Jörg Widmann og fleiri.