Ragnheiður Eyjólfsdóttir
Unglingurinn Hildisif er nýflutt aftur til Íslands með fjölskyldu sinni og stendur á tímamótum. Henni er útveguð sumarvinna á hálendinu þar sem hún á að vinna að landvernd með hópi unglinga. Þessum hópi er rænt og hann falinn neðanjarðar í óbyggðunum.
Þar fara unglingarnir að veikjast og uppgötva smám saman að hátæknilega byggingin þar sem þeim er haldið föngnum býr yfir andstyggilegu leyndarmáli.
Rotturnar er mjög spennandi vísindaskáldsaga þar sem metnaðarfullir vísindamenn á sviði líftækni hafa sagt skilið við alla siðfræði og virðingu fyrir manninum í raun þó þeir segist hafa háleit markmið. Unglingarnir gefast hins vegar ekki upp baráttulaust heldur berjast fyrir lífi sínu og stefna sinni þekkingu á tækni og samfélagsmiðlum gegn þeim fullorðnu.
Ragnheiður Eyjólfsdóttir er arkítekt, menntuð í Danmörku og Þýskalandi. Hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir fyrstu bók sína Arftakinn: Skuggasaga árið 2015.