Áframhaldandi norrænn styrkur til miðla á rússnesku í Eystrasaltsríkjum

27.04.18 | Fréttir
Mediabevakning
Photographer
Magnus Fröderberg
Norræna ráðherranefndin heldur áfram fjárstuðningi sínum við fjölmiðla minnihlutans í Eystrasaltsríkjunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Fjárstuðningurinn beinist að óháðum fjölmiðlafyrirtækjum á minnihlutatungumálinu rússnesku og er framhald á árangursríku stuðningsverkefni. Norræna samstarfsnefndin, NSK, tók ákvörðun um fjölmiðlastuðninginn á fundi sínum 24. apríl.

Tilgangurinn með stuðningsverkefninu er að bæta aðgengi og auka áhrif hins rússneskumælandi minnihluta í samfélaginu. Í áætluninni er lögð áhersla á fjölmiðla sem snerta dagsdaglegt líf hins rússneskumælandi minnihluta í Eystrasaltslöndunum þremur. Markmiðið með verkefninu er að auka tækifæri minnihlutamiðlanna til þess að verða raunveruleg viðbót við rússnesku fjölmiðlana sem eru ráðandi meðal rússneskumælandi íbúa Eystrasaltslandanna. Í öllum Eystrasaltslöndunum þremur er rússneskumælandi minnihluti umtalsverður hópur og í Litháen er auk þess pólskur minnihluti. Framboð fjölmiðla á minnihlutamálunum hefur verið takmarkað síðan Eystrasaltsríkin urðu sjálfstæð og staða hinna pólitísku miðla frá Rússlandi er þess vegna sterk. 

Norrænu ríkin telja afar mikilvægt að styðja lýðræðisstarfið í Eystrasaltslöndunum.

Þess vegna hóf Norræna ráðherranefndin þriggja ára samstarfsáætlun árið 2015 sem hefur að markmiði að styrkja rekstur rússneskumælandi fjölmiðla í Eystrasaltslöndunum þremur. Áætlunin hlaut jákvæðar undirtektir bæði pólitískt og í fjölmiðlageiranum í Eystrasaltsríkjunum. Því hefst nú annar áfangi þess. 

„Norrænu ríkin telja afar mikilvægt að styðja lýðræðisstarfið í Eystrasaltslöndunum með því að halda áfram að styrkja minnihlutamiðlanna,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Áætluninni er stýrt af skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Litháen. Skrifstofurnar í Lettlandi og Litháen og fjölmiðlasérsfræðingar í löndunum þremur taka þátt í að velja fjölmiðlana sem styrkina hljóta. Sækja þarf um styrkina.
Fjármagnið í fjölmiðlastuðningsáætluninni nemur 1.980.000 dönskum krónum.