Árásirnar í París eru áminning um mikilvægi þess að berjast gegn öfgastefnu

14.11.15 | Fréttir
Höskuldur Þórhallsson
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Liberté, égalité, fraternité. Frelsi, jafnrétti, bræðralag. „Einkennisorð Frakka gætu rétt eins verið einkennisorð Norðurlanda, og við upplifum árásirnar á íbúa Parísar líka sem árás á okkur og á gildi okkar hér heima fyrir“, segir Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, sem telur að aldrei hafi verið eins mikilvægt að berjast gegn öfgastefnu í samfélögum okkar á Norðurlöndum.

„Hryðjuverkaárásirnar í París snerta okkur öll. Við sjáum að blóm eru lögð niður við sendiráð Frakka á Norðurlöndum og við sjáum að margir lýsa samkennd sinni á samfélagsmiðlum. Sjálfum finnst mér erfitt að finna orð til að lýsa því hversu sárt er að sjá líf saklausra fara forgörðum vegna tilgangslausra hryðjuverka,“ segir Höskuldur Þórhallsson.

„Í París býr fólk frá öllum heimshornum, meðal annars fólk frá Norðurlöndum. Ég vona að enginn taki nú upp á því að segja að hryðjuverkin hafi nokkuð með trúarbrögð að gera. Þetta eru tilgangslaus ofbeldisverk og fullkominn skortur á virðingu fyrir mannslífum. Öll trúarbrögð heims leggja áherslu á frið og virða mannslíf, þannig að við megum aldrei láta hryðjuverkamenn telja okkur trú um að hryðjuverk séu trúarleg verk.

Öll trúarbrögð heims leggja áherslu á frið og virða mannslíf, þannig að við megum aldrei láta hryðjuverkamenn telja okkur trú um að hryðjuverk séu trúarleg verk.

Við verðum að vinna gegn öfgastefnu 

„Árásirnar í París minna okkur á að við verðum líka að vinna gegn öfgastefnu í samfélögum okkar á Norðurlöndum. Þingmenn Norðurlandaráðs eru einhuga um að aldrei hafi verið eins mikilvægt að berjast gegn öfgastefnu,“ segir Höskuldur Þórhallsson.

Nánari upplýsingar hér:

Norðurlandaráð styður ríkisstjórnir Norðurlanda sem hafa gert samning um norrænt samstarf um fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn öfgastefnu. Norðurlandaráð leggur einnig áherslu á að staðbundin yfirvöld og aðrir aðilar í samfélaginu komi að þessu starfi.

„Mikilvægt er að koma í veg fyrir að öfgahópum takist að laða að ungmenni frá Norðurlöndum. Nánara samstarf Norðurlanda um þennan sameiginlega vanda getur hjálpað til við að koma í veg fyrir að við þurfum að upplifa sams konar árásir á Norðurlöndum,“ segir forseti Norðurlandaráðs að lokum.