„Aukið samstarf um orkumál veitir Norðurlöndum heimsforystu“

20.06.17 | Fréttir
Lancering af energirapporten Nordisk energisamarbejde: Stærkt i dag – stærkere i morgen
Ljósmyndari
Matts Lindqvist
Samkeppnin á sviði grænnar orku eykst óðfluga og Norðurlöndin verða að vinna saman ef þau ætla að halda leiðandi stöðu í heiminum. Ummælin er að finna í skýrslu þar sem Jorma Ollila, fyrrum framkvæmdastjóri Nokia, leggur fram 14 tillögur til eflingar norrænu samstarfi um orkumál. Ný sýn fyrir samstarfið mikilvægust

Norræna ráðherranefndin fól Jorma Ollila að vinna stefnumótandi úttekt á því hvernig þróa mætti norrænt orkumálasamstarf næstu 5–10 árin. Þann 20. júní afhenti hann skýrsluna þeimTerjeSøviknes, orkumálaráðherra Noregs og formanni Norrænu ráðherranefndarinnar um orkumál á árinu 2017 og Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.

Skýrsla Jorma Ollila, Norrænt orkumálasamstarf: Öflugt í dag – enn öflugra á morgun, inniheldur 14 tillögur um nánara samstarf út frá umskiptum til grænnar orku og viðfangsefnum þar að lútandi. Skýrslan byggir á umskiptum til grænnar orku, Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál, þróun orkumála á vettvangi Evrópusambandsins og orkumálastefnu norrænu landanna.

Við verðum að sýna mikinn metnað. Markmiðið á að vera að þróa snjöllustu orkukerfi í heimi og finna kostnaðarhagkvæmustu lausnirnar fyrir umskipti til græns hagkerfis.

Brattasti hjallinn framundan

Ein helstu skilaboð skýrslunnar eru þau að brattasti hjallinn í grænum umskiptum séu framundan, einkum í samgöngum. Jorma Ollila segir fámenn ríki verða að vinna saman til að tryggja sig í sessi:

„Næsti áratugur verður sérlega krefjandi. Stórir markaðsaðilar fjárfesta í grænum umskiptum og harka færist í samkeppnina. Norðurlöndin eru leiðandi á heimsvísu en fámenn og því er hætt við að þau megi sín lítils hvert um sig í alþjóðlegri samkeppni. Spurningin er hvort við getum leyft okkur að starfa ekki saman.

Ný sýn mikilvæg

Að sögn Jorma Ollila er mikilvægt að byrja á því að skilgreina skýra sýn fyrir norrænt orkumálasamstarf áður en ráðist er í viðfangsefnin.

„Við verðum að sýna mikinn metnað. Markmiðið á að vera að þróa snjöllustu orkukerfi í heimi og finna kostnaðarhagkvæmustu lausnirnar fyrir umskipti til græns hagkerfis.“

Aðrar tillögur skýrslunnar eru útfærslur á þeirri heildarsýn. Jorma Ollila kallar eftir stórauknum fjárfestingum í samnorrænu rannsókna- og þróunarstarfi. Hann leggur til að mótuð verði sérstök sýn fyrir norrænar orkurannsóknir og að norræn doktorsverkefnaáætlun á sviði orku og nýsköpunar verði sett á laggirnar.

Jorma Ollila leggur til að gerðar verði norrænar greiningar (jafningjarýni) á ákvörðunum landanna um orkumál enda hafi þær bein áhrif á önnur lönd.

Jorma Ollila hvetur löndin til að hámarka ávinninginn af norrænu samstarfi . Sem dæmi tekur hann einstakt og árangursríkt samstarf þeirra á raforkumarkaði.

„Árangurinn er óræk staðfesting á því hverju hægt er að áorka í opnu samstarfi sem byggir á trausti. Samstarfið hefur gagnast öllu svæðinu og ætti að koma til framkvæmdar á öllum sviðum orkumálasamstarfsins.“

Skýrslan inniheldur einnig tillögur um raforkumarkaðinn. Jorma Ollila leggur til að Norðurlöndin haldi áfram að þróa markaðsmiðað kerfi. Einnig að löndin móti sameiginlega útflutningsstefnu á sviði orkutækni og orkulausna og verði þar starf knúið áfram af samtökum atvinnugreina og útflutningsráðum landanna.

Norrænt orkumálasamstarf er öflugt í dag, ekki síst þegar litið er á samstarfið á raforkumarkaði þar sem góður orðstír landanna hefur borist um allan heim.

Góður umræðugrundvöllur

Skýrsla Jorma Ollila er framlag í umræðuna um framtíðarsamstarf Norðurlanda í orkumálum. Orkumálaráðherrar og ríkisstjórnir Norðurlanda taka endanlegar ákvörðun um tilhögun samstarfsins.

„Norrænt orkumálasamstarf er öflugt í dag, ekki síst þegar litið er á samstarfið á raforkumarkaði þar sem góður orðstír landanna hefur borist um allan heim. Ég fagna því að ræða tillögur skýrslunnar við norræna kollega mína áður en við tökum ákvörðun um nýja norræna samstarfsáætlun í orkumálum,“ segir Terje Søviknes orkumálaráðherra.

Áður hafa verið gerðar úttektir á sviðum heilbrigðismála og vinnumála en þær eru liður í umbótaferli hjá Norrænu ráðherranefndinni undir yfirskriftinni „Nýtt norrænt samstarf“.

„Markmiðið með umbótunum er að gera norrænt samstarf skilvirkara, ekki síst að auka pólitískt vægi þess og kanna hvaða nýju málaflokkar gætu átt erindi í svæðisbundið samstarf Norðurlanda. Orkumálaskýrslan er mikilvægur áfangi og jafnframt frábær úttekt á þeim viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir. Tillögur Jorma Ollila eru vel þess virði að íhuga, ekki aðeins á sviði orkumála,“ segir Dagfinn Høybråten.

Neðanmálsgrein: Við gerð skýrslunnar ræddi Jorma Ollila við hundrað fulltrúa stjórnmálanna og orkuiðnaðar, opinbera geirans og einkageirans, á Norðurlöndum og víðar í Evrópu.