Fullorðinsfræðsla verði skylda á Norðurlöndum

14.06.16 | Fréttir
Poul Nielson
Ljósmyndari
Laura Kotila/Norden.org
Ríkisstjórnir norrænu landanna eiga að beita sér fyrir því að fullorðinsfræðsla og endurmenntun verði skylda fyrir allt vinnandi fólk á Norðurlöndum og koma á fót kerfi þar að lútandi með aðstoð frá aðilum vinnumarkaðarins. Þetta leggur Poul Nielson, fyrrum ráðherra í dönsku ríkisstjórninni og fulltrúi í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, til í stefnumótandi úttekt sinni á norrænum vinnumarkaðsmálum.

Norræna ráðherranefndin fól Poul Nielson að vinna stefnumótandi úttekt sem á þriðjudaginn var afhent dóms- og vinnumálaráðherra Finnlands, Jari Lindström, sem er formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um vinnumál árið 2016. Í skýrslunni eru 14 tillögur að leiðum til að þróa vinnumarkaðinn gegnum norrænt samstarf.

Nielson bendir á að mikið sé þegar gert til að efla færni fullorðinna, en að „meira af því sama“ dugi ekki til að mæta þeim áskorunum sem fylgt hafi hnattvæðingu, stafvæðingu og tækniþróun. Hröð tækniþróun mæti nú hækkandi eftirlaunaaldri, sem auki þörfina fyrir fjölbreytilega menntun og fræðslu.

„Ef tryggja á samkeppnishæfni Norðurlanda til framtíðar þurfum við að tileinka okkur nýjan hugsunarhátt í menntamálum. Því eigum við að fastsetja þá framtíðarsýn að þróa sameiginlegt líkan fyrir skylduboðna fullorðinsfræðslu,“ segir Poul Nielson.

Sálrænt vinnuumhverfi

Þau viðfangsefni sem liggja fyrir á norrænum vinnumarkaði, auk menntunar og færni vinnandi fólks, snúa að vinnuumhverfi, fólksflutningum og jafnrétti. Samkvæmt skýrslunni eiga norrænu löndin að nýta sér sameiginlegar lausnir á þessum sviðum í auknum mæli og njóta góðs af samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar við alþjóðlega aðila og norræna aðila á vinnumarkaði.

Að sögn Nielsons þarf að bæta sálrænt vinnuumhverfi, auk rannsókna og lagaramma þar að lútandi. Norðurlöndin eigi að kanna þann möguleika að samræma reglugerðir á sviðinu þannig að sálrænt vinnuumhverfi verði í lagalegu samræmi við líkamlegt vinnuumhverfi.

Í skýrslunni er fullyrt að nú á tímum stóraukinna fólksflutninga eigi Norðurlönd að hlúa að grunngildum norræna vinnumarkaðslíkansins. Það sé mikilvægt frá sjónarmiði jafnréttis, einkum hvað viðkomi konum úr röðum innflytjenda. Með tilliti til aðlögunar sé afar mikilvægt að innflytjendur á Norðurlöndum fái skjóta og góða fræðslu um vinnumarkaðinn – þannig megi nýta þá auðlind sem falist getur í auknum innflutningi fólks 

Í skýrslunni segir að á heildina litið eigi að leggja meiri áherslu á jafnrétti á hinum ýmsu sviðum norræns vinnumarkaðssamstarfs.

Ef tryggja á samkeppnishæfni Norðurlanda til framtíðar þurfum við að tileinka okkur nýjan hugsunarhátt í menntamálum. Því eigum við að fastsetja þá framtíðarsýn að þróa sameiginlegt líkan fyrir skylduboðna fullorðinsfræðslu.

Þörf fyrir virka og samræmda stefnu um málefni ESB

Poul Nielson sér sóknarfæri fyrir Norðurlöndin til að þróa sameiginlega stefnu og hafa áhrif á ferli Evrópusambandsins efnislega, í stað þess að bregðast aðeins við ákvörðunum og reglum ESB eins og nú er. Þessu megi ná fram með því auka skilning á norræna líkaninu í samskiptum við stofnanir ESB. 

Þrátt fyrir að norrænn vinnumarkaður hafi lent í skugganum af málefnum ESB fullyrðir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, að fjölmargir alþjóðlegir aðilar líti til Norðurlanda þegar komi að því að leysa viðfangsefni á sviði vinnumarkaðar.

„Vonandi munu tillögurnar í skýrslunni verka eins og vítamínsprauta á norrænt vinnumarkaðssamstarf. Þessi málefni eru ofarlega á dagskránni hjá ríkisstjórnunum,“ segir Høybråten. 

Í haust mun skýrslan fá pólitíska afgreiðslu í Norrænu ráðherranefndinni um vinnumál undir handleiðslu finnska ráðherrans Jari Lindström.

„Það kemur skýrt fram í skýrslu Nielsons að á norrænum vinnumarkaði eru sameiginlegir starfshættir og gildi ráðandi. Það er vel að málefni vinnumarkaðarins hafi nú verið rannsökuð frá norrænu sjónarhorni í auknum mæli,“ segir Lindström.

Skýrslan „Arbetsliv i Norden“ byggir á yfir hundrað samtölum Pouls Nielson við m.a. ráðherra, þingmenn, embættismenn, vísindamenn og aðila vinnumarkaðarins á öllum Norðurlöndunum, auk ESB, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Hún er þriðja stærsta stefnumótandi úttektin á norrænum vettvangi.

Lesið skýrsluna í heild sinni: