Norðurlandaráð vill standa vörð um einkalíf barna og ungmenna á netinu

19.04.16 | Fréttir
Jorodd Asphjell
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Það er útbreitt vandamál á öllum Norðurlöndum að persónulegum myndum og myndböndum barna og ungmenna sé deilt á samfélagsmiðlum. Stjórnmálamennirnir í norrænu þekkingar- og menningarnefndinni beina nú sjónum að þessum vanda og hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að efna til ráðstefnu þar sem skipst verði á reynslu og tillögum að lausnum.

„Við erum afar uggandi yfir sívaxandi misnotkun á kynferðislegum myndum og myndböndum af börnum og ungmennum, sem deilt er á samfélagsmiðlum. Það verður að beina sjónum að vandanum í meiri mæli, svo að við getum fundið góðar lausnir og verndað unga fólkið eftir bestu getu,“ segir Jorodd Asphjell, formaður norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.

Margt ungt fólk veit ekki að það er refsivert að deila klámefni af ungmennum undir átján ára aldri í leyfisleysi, og með þessari tillögu vill nefndin efla fjölmiðlalæsi ungmenna og standa vörð um einkalíf þess.

Formennska Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni hefur þegar átt frumkvæði að mörgum verkefnum á þessu sviði og verður kortlagning á fjölmiðlalæsi barna og ungmenna kynnt á þingi Norðurlandaráðs í nóvember.