Listakonan Jessie Kleeman í Norræna skálanum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28

30.11.23 | Fréttir
Arkhticós Dolorôs (Artic Pain) Jessie Kleemann
Photographer
Chelsea A. Reid and Tyler Levesque
Listakonan Jessie Kleemann verður í Norræna skálanum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, í Dubai. Jessie, sem nýverið sýndi list sína á Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn við mikið lof gagnrýnenda, mun sýna vídeóverk sitt „Arkhticós Dolorôs“ (Arctic Pain) og taka þátt í pallborðsumræðum um hlutverk lista í grænum umskiptum.

Norrænt samstarf setur listir og menningu á dagskrá á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem hefst í Dubai á fimmtudaginn. 

„Það gleður okkur að Jessie Kleeman skuli sýna verk sitt og miðla reynslu um það hvers vegna listir gegna lykilhlutverki í grænum umskiptum í dagskrá Norðurlandanna á loftslagsráðstefnunni. Það er löngu tímabært að við beinum kastljósinu að listafólki sem með ólíkum hætti getur í verkum sínum stuðlað að skilningi og aukið meðvitund um þær gríðarlegu breytingar sem við stöndum frammi fyrir, bæði á Norðurlöndum og annars staðar,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Ísinn bráðnar – „Arkhticós Dolorôs“ (Arctic Pain)

Myndlistarkonan og ljóðskáldið Jessie Kleemann hefur sett mark sitt á samtímalist á Norðurlöndum og alþjóðlega. Hún vinnur vídeóverk, gjörningalist og tilraunaleikhús og skrifar einnig bækur og gerir innsetningar. Vídeóverk Jessie Kleemann „Arkhticós Dolorôs“ (Arctic Pain) verður sýnt daglega fyrstu viku loftslagsráðstefnunnar. Gjörningurinn í verkinu var tekinn upp í nágrenni Ilulissat á Grænlandi. 

„Arkhticós Dolorôs þýðir að við séum öll í þessu, þetta er þjáning mín, þetta er þjáning norðurskautsins, við erum þjáningin, hinn stórkostlegi hvítabjörn þjáist einmitt nú,” segir Jessie Kleemann um verkið.
 

Jessie sem er frá Upernavík á Grænlandi býr og starfar í Kaupmannahöfn. Einkasýningu hennar, Running Time, lauk nýverið á Statens Museum for Kunst en sýningin hlaut mikið lof gagnrýnenda. Auk þess stendur yfir sýning í Kunsthal Rønnebæksholm þar sem sjónum er beint að ljóðlist hennar og málverkum.

Pallborðsumræður: No transformation without imagination

Jessie Kleemann tekur einnig þátt í pallborðsumræðum sem haldnar verða í Norræna skálanum 6. desember um þátt listar og menningar í grænum umskiptum. Í umræðunum verður lagt út frá mætti listarinnar til að skapa meðvitund og skilning um breytta lífshætti, hegðun og þátttöku.

Aðrir þátttakendur í pallborðsumræðunum eru: Solveig Korum, Menningarmálastofnun Noregs, Louise Lindén, LiveGreen, Gunn-Britt Retter, Samaráðinu, Rodion Sulyandziga, IWGIA.  
Viðburðurinn verður í beinu streymi þannig að fólk getur tekið þátt þó að það sé ekki í Dubai. 
 

Viðburður: No transformation without imagination
The power of art and culture for the green transition
6. Desember, 18.15 til 19.00 (UTC+4)

Það gleður okkur að Jessie Kleeman skuli sýna verk sitt og miðla reynslu um það hvers vegna listir gegna lykilhlutverki í grænum umskiptum í dagskrá Norðurlandanna á loftslagsráðstefnunni.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar