Norræn forgangsmál á fundi forsætisráðherranna

27.05.14 | Fréttir
Ministerne i Norden
Á fundi forsætisráðherra Norðurlanda sem haldinn var á þriðjudaginn á Íslandi lýstu þeir norrænu samstarfi sem sjálfgefnum vettvangi til að takast á við þær áskoranir sem Norðurlönd, Evrópa og heimurinn allur stendur frammi fyrir. Þeir settu á oddinn starf Norrænu ráðherranefndarinnar á sviðum á borð við lífhagkerfið og heilbrigðismál og það að efla stöðu og samkeppnishæfni Norðurlanda.

„Skýr traustsyfirlýsing forsætisráðherranna við vinnu okkar að því að styrkja og hleypa lífi í getu norræns samstarfs til að leika enn stærra pólitískt hlutverk á Norðurlöndum, í Evrópu og á heimsvísu er auðvitað gleðiefni og gefur okkur aukna orku til að stuðla að því að Norðurlönd verði enn sterkari,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Yfirlýsing forsætisráðherranna

Við, forsætisráðherrar Norðurlanda, ítrekum stuðning okkar við það öfluga samstarf sem er á milli landanna. Löng hefð er fyrir norrænu samstarfi og það hefur skilað mikilvægum árangri á mörgum sviðum, hvort tveggja á formlegum vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og í óformlegu samstarfi okkar.

Þróun mála í Úkraínu á síðustu mánuðum er mikið áhyggjuefni, einkum á sviði öryggis- og orkumála og hvað varðar virðingu fyrir grundvallarviðmiðum alþjóðalaga. Þessi nýja staða kallar á öflugra samstarf á Norðurlöndum, í Evrópu og yfir Atlantshaf. Forsetakosningarnar sem haldnar voru í gær eru mikilvægt skref í átt að auknum stöðugleika í landinu.

Efnahagur Evrópu er smám saman að rétta úr kútnum þótt enn sé ýmislegt sem þarf að takast á við. Efnahagskreppan hefur enn einu sinni sýnt fram á lífvænleika og gildi norræna líkansins með opin samfélög, blómlegt efnahagslíf, háþróuð velferðarkerfi, lítinn efnahagslegan ójöfnuð, jöfn tækifæri og sveigjanlegan vinnumarkað. Þessi aðalsmerki samfélaga okkar endurspegla sameiginleg gildi sem grundvallast á lýðræðislegum meginreglum og virðingu fyrir mannréttindum.

Samstarf

Nú má samt ekki sýna af sér andvaraleysi. Við verðum að halda við og styrkja samkeppnishæfni efnahagslífs okkar og jafnframt standa vörð um og þróa velferðarsamfélög okkar til að mæta áskorunum 21. aldarinnar. Norrænt samstarf er augljós vettvangur fyrir þetta starf.

Þegar við stöndum saman erum við í betri aðstöðu til að takast á við loftslagsbreytingar, meðal annars við norðurheimskaut, og til að leggja okkar af mörkum til stefnumótunar í öðrum mikilvægum málum okkar tíma á evrópskum vettvangi, til dæmis í tengslum við hagvöxt, velferðarmál, menntun og framleiðslu og framboð á sjálfbærri orku.

Áhrif

Það eru tækifæri til að auka óformlegt samráð um stefnumótun milli ríkisstjórna okkar og til að auka sýnileika og áhrif Norðurlanda. Leggja ætti megináherslu á að nýta betur samstarf okkar á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar í málefnum á borð við þróun lífhagkerfisins, samstarf í heilbrigðismálum, svæðisbundna markaðssetningu og samkeppnishæfni.

Ráðherrar okkar sem fara með utanríkis-, öryggis- og varnarmál og samstarfsráðherrar Norðurlanda hafa nýlega samþykkt nýja framtíðarsýn fyrir samstarf sitt. Samtímis er verið að vinna að viðamiklum umbótum innan Norrænu ráðherranefndarinnar og gerðar hafa verið ráðstafanir til efla norrænt samstarf og skipti á upplýsingum um Evrópu- og alþjóðamál.

Við ítrekum trú okkar á mikilvægi og gildi norræns samstarfs um ókomna framtíð.