Nýtt norrænt fjármagn til sjálfbærrar þróunar

14.08.15 | Fréttir
Lofoten
Ljósmyndari
Nikolaj Bock
Norræna ráðherranefndin hefur veitt fjórum nýjum sjálfbærniverkefnum styrki. Styrkveitingin er liður í yfirstandandi átaki til að efla sjálfbæra þróun á Norðurlöndum. Við úthlutunina var horft til bæði menningar- og náttúrutengdra þátta.

Meginþemu fyrir styrkveitingar úr sjálfbærnisjóði Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2015 voru tvö: annars vegar sjálfbærni í neyslu og framleiðslu og hinsvegar stuðningur almennings við alþjóðlega sjálfbærniáætlun SÞ fyrir tímabilið eftir 2015.

Alls renna 2,9 milljónir danskra króna til verkefnanna fjögurra í tengslum við stefnu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun.

Tengslanet, hönnun og menntamál

Norrænu tengslaneti fyrir þróun sjálfbærrar framleiðslu og neyslu er ætlað að efla samstarf hönnuða, arkitekta, vísindamanna og framleiðenda. Umsjón með tengslanetinu hafa Arkitektúrs- og hönnunarmiðstöðin í Stokkhólmi og Form/Design Center í Málmey. Markmiðið er að hanna ný viðskiptalíkön fyrir sjálfbæra framleiðslu og mun verkefnið verða styrkt frekar á vettvangi norræns menningarsamstarfs.

Umhverfis- og menntamálin mætast svo í þverfaglegu verkefni, sem gengur út á þróun norræns kennsluefnis um sjálfbæra þróun. Meðal annars hyggst Náttúrufræðistofnun Háskólans í Ósló laga norska verkefnið „náttúrulegu skólatöskuna“ að norrænum þörfum og um leið efla þekkingu ungmenna á sjálfbærniáætlun SÞ. Verkefnið mun fara fram í tengslum við norrænu loftslagsáskorunina fyrir 12–14 ára nemendur, sem fer fram árlega undir umsjón Sambands norrænu félaganna.

Útivistariðkun, ungmenni og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum

Viðfangsefni hinna tveggja verkefnanna sem hljóta styrk eru annars vegar útivistariðkun barna og ungmenna og hins vegar rannsóknir á áhrifum búfjárbeitar og staðbundinnar kjötframleiðslu á loftslagsbreytingar.

Verkefnið um útivistariðkun er þáttur í norrænni framkvæmdaáætlun um mataræði og hreyfingu og framkvæmt í samstarfi við norrænu barna- og ungmennanefndina (NORDBUK). Stjórnvöld á Norðurlöndum svo og norræn félagasamtök koma að verkefninu, sem er hvort tveggja ætlað að efla útivistariðkun barna og ungmenna og skoða möguleika á frekari þróun í útivistartengdri ferðamennsku.

Verkefnið um búfjárbeit og kjötframleiðslu er hugsað út frá loftslagssjónarmiði. Rannsóknir sýna að búfjárbeit getur gegnt mikilvægu hlutverki í loftslagsmálunum, auk þess sem staðbundin framleiðsla á gæðakjöti getur tryggt mataröryggi. Nordgen, erfðaauðlindastofnun norrænu ráðherranefndarinnar, hefur umsjón með verkefninu.

Sjálfbærni er gegnumgangandi áherslusvið í öllu starfi Norrænu ráðherranefndarinnar. Starfið grundvallast á stefnu Norðurlanda um sjálfbæra þróun, en hún er elsta svæðisbundna aðgerðaáætlun sinnar tegundar. Öll ofannefnd verkefni hafa skírskotun í einhver þeirra aðgerðasviða sem heyra undir stefnuna.