Thorvald Stoltenberg á Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi

22.10.14 | Fréttir
Thorvald Stoltenberg
Photographer
Søren Sigfusson
Staðan í utanríkis- og öryggismálum á Norðurlöndum mun setja svip sinn á umræðu um málefni líðandi stundar á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi í næstu viku. Gestaræðumaður við umræðuna verður Thorvald Stoltenberg, fyrrum utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs og höfundur Stoltenberg-skýrslunnar umtöluðu.

Í febrúar 2009 skilaði Stoltenberg skýrslu sinni um Norrænt samstarf á sviði öryggis- og utanríkismála til utanríkisráðherra Norðurlanda. Í skýrslunni voru kynnt ýmis stefnumótunarsvið og leiðir sem gætu hentað til þróunar og eflingar Norðurlandasamstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála.

Norðurlönd hafa nú þróað samstarf sitt í samræmi við flestar þeirra ábendinga sem fram komu í skýrslunni. Sá tími er löngu liðinn að varnarmál séu bannorð. Fyrr í þessum mánuði efndi Norðurlandaráð til annarra hringborðsumræðna sinna um norræna varnarmálastefnu í samstarfi við formennsku Noregs í varnarmálasamstarfinu NORDEFCO.

„Við vonum að umræðan um málefni líðandi stundar geti einnig komist lengra en að fjalla um framkvæmdahlið varnar- og öryggismála, sem mun eflaust vera fjallað um bæði á leiðtogafundi forsætisráðherranna og í skýrslu varnarmálaráðherranna. Eitt þeirra mála sem geta komið upp eru leiðir til að taka á flóttamannastraumi til Norðurlanda í kjölfar óróa úti í heimi,“ segir Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs.

Þátttaka gestaræðumanns í umræðu um málefni líðandi stundar á Norðurlandaráðsþingi er nýmæli og hluti af endurbótastarfi sem Norðurlandaráð hrindir í framkvæmd á tímabilinu 2014–2015.

Skráning blaðamanna á Norðurlandaráðsþing fer fram til 23. október.