Áslaug Jónsdóttir, Kalle Güettler & Rakel Helmsdal

Skrímsli í vanda (”Monster i knibe”)
Áslaug Jónsdóttir, Kalle Güettler & Rakel Helmsdal: Skrímsli í vanda. Myndabók, Forlagið, 2017

Bókin Skrímsli í vanda fjallar á yfirborðinu um viðbrögð litla og stóra skrímslisins við loðna skrímslinu sem er í heimsókn hjá litla skrímslinu og sýnir ekki á sér neitt fararsnið. Þegar það er beðið að fara heim til sín kemur í ljós að það á hvergi heima. Þetta setur litla og stóra skrímslið í siðferðilega klípu sem þau leysa á endanum með sínum hætti. Sagan afhjúpar tilfinningar sem allir þekkja, jafnt börn sem fullorðnir, en af því að sagan er marglaga upplifir hver og skilur eftir sínum þroska og reynslu.

Myndirnar og textinn vinna mjög vel saman í að miðla þeirri sögu sem sögð er í bókinni. Myndirnar eru litríkar og líflegar og undirstrika tilfinningar og viðbrögð skrímslanna. Leturbreytingar í textanum gera það líka og hjálpa til við að leggja áherslur í upplestri en gera það einnig að verkum að stundum verður textinn eins og hluti af myndunum.

Ekki er sagt með beinum hætti í textanum hvers vegna loðna skrímslið á ekki í neitt hús að venda. Á einni opnu bókarinnar eru myndir af hugsanlegum ástæðum, til dæmis eldsvoði, náttúruhamfarir og stríð. Myndirnar af loðna skrímslinu sýna að það er grátt leikið, með sáraumbúðir og plástur.

Þannig hefur Skrímsli í vanda ríka skírskotun til samtímans. Ástæðan fyrir því að sumir eiga engan tryggan samstað í tilverunni skiptir ekki öllu máli en viðbrögð samferðafólks gera það.

Áslaug Jónsdóttir er myndskreytir og barnabókahöfundur, myndlistarmaður og grafískur hönnuður. Hún gaf út sína fyrstu barnabók árið 1990. Hún hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir bækur sínar, meðal annars íslensku myndskreytiverðlaunin Dimmalimm fyrir fyrstu bókina um skrímslin; Nei! sagði litla skrímslið og einnig fyrir bókina Gott kvöld sem var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna árið 2006. Fyrir nýjustu bókina um skrímslin, Skrímsli í vanda, hlaut hún, ásamt Kalle Güettler og Rakel Helmsdal, Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka árið 2018.