Bárður Oskarsson

Bárður Oskarsson
Photographer
Birgir Kruse
Bárður Oskarsson: Flata kaninin (Flata kanínan) Bókadeildin 2011

Myndabókin Flata kaninin (Flata kanínan) eftir myndlistarmanninn og barnabókahöfundinn Bárð Oskarsson (fæddur 1972) fjallar um siðfræði og ábyrgð á næman og áleitinn hátt. Viðfangsefni bókarinnar er náskylt harmleiknum um Antígónu og Ilíonskviðu og verkefnið sem takast þarf á við er að sjá um lík nákomins einstaklings þrátt fyrir að því fylgi mikiil áhætta.  

Persónurnar í bókum Bárðar Oskarssonar eru dýr. Þau hafa mikilvæga mannlega eiginlega, þau tala og þau dýranna sem eru fjórfætt ganga á afturfótunum, en aftur á móti eru þau ekki í fötum. Þau búa oft í manngerðu umhverfi, til dæmis í bæ, en engar manneskjur eru til staðar nema sem orsök atburða sem hafa dramatískar afleiðingar.

Í Flata kaninin eru mannlegar gjörðir undanfari og uppspretta söguþráðarins: Hundur og rotta mætast á gangstétt í bænum og sjá kanínu sem liggur algerlega útflött á götunni. Maður gengur út frá því að hún hafi orðið fyrir bíl þótt ekki komi neitt fram um það. Hundurinn og rottan vorkenna kanínunni að vera orðin svona flöt og velta fyrir sér hvað þeir geti tekið til bragðs. Þeir hafna þeim möguleika að leita til þeirra manna sem tengjast kanínunni því þá er líklegast að þeir sem sendiboðar verði sjálfir fyrir ásökunum. En hundurinn fær hugmynd. Þeir með kanínuna heim til hundsins, varlega þannig að hún detti ekki í sundur. Alla nóttina heyrast hamarshögg úr húsi hundsins og um morguninn hafa þeir lokið smíði flugdreka. Þeir festa kanínuna við krosslagðar spýturnar á neðri hluta flugdrekans og eftir margar tilraunir tekst þeim að koma drekanum með kanínunni á loft. Að lokum velta hundurinn og rottan því fyrir sér hvernig sé fyrir kanínuna að vera þarna uppi í loftinu.

Hundurinn og rottan bregðast við örlögum kanínunnar af æðruleysi og með hluttekningu. Þeir frelsa hana úr stöðu niðurlægjandi varnarleysis og endurheimta reisn hennar. Hundurinn er aðalpersónan. Hann er næmur og íhugull, með mjóa útlimi, ógnarstórt höfuð og blautt trýni. Rottan er smávaxinn bandamaður hans.

Stíllinn er mínímalískur bæði hvað varðar texta og myndir sem vinna vel saman og gera söguna margbreytilegri. Til dæmis er enginn bíll nefndur en á opnunni á blaðsíðum 13 og 14 er lítill grár bíll til vinstri en til hægri heilsíðumynd af útflöttu kanínunni sem hundurinn og rottan virða fyrir sér af gangstéttinni. Á sama hátt er rauður bíll vinstra megin á opnunni á blaðsíðum 30 til 31 (hættumerki?) en á hægri hlið sést hundurinn sem flýgur drekanum á meðan rottan horfir á. Oskarsson notar vatnsliti og litatónarnir í Flata kaninin, sem eru að mestu leyti gagnsæir og mjög ljósir, verða til þess að mýkja óvægnar og berstrípaðar myndskreytingarnar.

Í bókmenntunum tákna persónur sem eru dýr í raun fólk og lítil dýr eru látin tákna börn. Ef sá skilningur er lagður til grundvallar er Flata kaninin sterk frásögn af svokölluðum færum börnum nútímans. Með því er átt við börn sem hafa náð færni sem að jafnaði einskorðast við fullorðna. En bókin er líka í flokki betri barnabóka af þeirri gerð sem ætluð er öllum aldurshópum.