Christian Rex
Rökstuðningur:
Á tímum loftslagsbreytinga á myndasaga Christians Rex um Manguaraq brýnt erindi. Hvað gerist þegar mannfólkið fylgir ekki hinum óskrifuðu reglum samfélagsins um æskilega lifnaðarhætti, gerist of ráðríkt og neitar að fara vel með náttúruna, loftslagið og dýrin sem við eigum afkomu okkar undir?
Í goðafræði og þjóðsögum Grænlendinga síðan fyrir kristnitöku má finna fjölda frásagna sem sýna þær afleiðingar sem það gæti haft fyrir mannkynið að hugsa ekki vel um náttúruna og dýrin sem þar búa. Ein þessara frásagna er sagan um Mánguaraq, sem nefnist Manguaraq í ýmsum munnlegum og skriflegum endursögnum.
Christian Rex hefur nú endursagt söguna af Mánguaraq sem myndasögu fyrir börn og ungmenni. Þetta er vissulega gömul grænlensk saga, en hún á þó enn fullt erindi með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda – lifandi auðlinda sem og annarra – og það að lifa í sátt við náttúruna.
Myndirnar og knappir textar myndasöguformsins gera lesandanum auðvelt að skilja hin alvarlegu viðfangsefni sem tengjast fornum reglum inúítanna um lifnaðarhætti og samfélagstabú, sem í dag mætti líkja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni. Með hrífandi og á stundum óhugnanlegum teikningum blæs Christian Rex lífi í hina fornu heimsmynd inúíta og miðlar henni á hátt sem gerir boðskapinn aðgengilegan fyrir ungmenni nútímans.
Í þjóðsögunni segir frá Mánguaraq, sem kallaður er Litla-Rót og er sonur Mángorsuaq eða Stóru-Rótar. Hann er duglegur og efnilegur veiðimaður og sérlega fær í að veiða náhvali. Dag nokkurn birtist gríðarstór hvalur með skrýtinn, svartan blett undir öðru bægslinu. Þó að þeir hafi þegar veitt nógu marga hvali, og þar með aflað nægrar fæðu til að endast út árið, freistast Mánguaraq til að eltast við þennan stóra og óvenjulega náhval. Með því storkar hann örlögunum. Faðir Mánguaraq varar hann við og segir að þennan hval megi aðeins Máninn veiða, en Máninn ræður veðri og vindum, hafi, snjó og ís. Það er áríðandi að mannfólkið þóknist Mánanum, forðist þannig hrikalegt veður og hætti ekki á hungurdauða.
Þrátt fyrir aðvaranir föður síns reynir Mánguaraq að veiða hvalinn og kallar þannig reiði Mánans yfir sig. Máninn skorar á Mánguraq í bardaga og föðurnum til mikillar undrunar ber Mánguaraq sigur úr býtum, þar sem hann sýnir meira óttaleysi í eltingaleik við ýmsa óvenjulega og ógnvekjandi fiska og hvali. Saman halda þeir til heimkynna Mánans uppi á himinhvolfinu, þar sem Máninn opinberar töframátt sem skapað getur frið og ró meðal mannfólksins þegar það verður of ráðríkt og veldur ójafnvægi í náttúrunni. Skilaboð hans til Mánguaraq eru skýr: Farðu heim og segðu samferðafólki þínu að hugsa betur um náttúruna og dýrin sem þar búa.