Dronningen – Danmörk

Billede fra "Dronningen" (Danmark) - Trine Dyrholm og Gustav Lindh
Photographer
Nordisk Film Production / Rolf Konow
Danska kvikmyndin „Dronningen“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Anne er snjall og metnaðarfullur lögfræðingur sem hefur sérhæft sig í málefnum barna og ungmenna. Hún virðist lifa hinu fullkomna lífi með eiginmanni sínum, lækninum Peter, og tvíburadætrum þeirra. Anne á einnig stjúpson á unglingsaldri, Gustav, sem hefur ekki haft mikið saman að sælda við fjölskyldu föður síns. Þegar Gustav flytur inn til Anne og Peters setur stigvaxandi losti stjúpmóðurinnar af stað atburðarás sem getur ógnað allri tilveru hennar ef upp kemst. Dronningen er ítarleg lýsing á hörmulegu fjölskylduleyndarmáli og afleiðingum ofdrambs, losta og lyga sem leggjast á eitt til að leiða aðalpersónuna í óhugsandi ógöngur.

Rökstuðningur dómnefndar

Það er snúið að segja sögu þegar áhorfendum er látið eftir að geta sér til um ástæður og hvatir persónanna, sérstaklega þegar um er að ræða nokkuð svo siðferðislega vafasamt sem kynferðislegt samband aðalpersónu við stjúpson sinn. Í Dronningen, sem er að mörgu leyti á skjön við okkar venjubundna skilning á kvikmyndum, upplifir áhorfandinn þessa berskjöldun þó ekki sem óviðeigandi. Leikstjórinn May el-Toukhy finnur rétta jafnvægið í nálgun sinni og aðalpersóna myndarinnar er dularfull en heilsteypt í túlkun Trine Dyrholm. Dronningen er unaðslega hneykslanleg upplifun fyrir augu og anda.

Handritshöfundur/leikstjóri – May el-Toukhy

May el-Toukhy (1977) fæddist í Kaupmannahöfn. Móðir hennar er dönsk og faðirinn frá Egyptalandi. Hún lauk námi frá Sviðslistaskóla Danmerkur árið 2002 og leikstjórnarnámi frá Kvikmyndaskóla Danmerkur 2009.

Fyrsta mynd hennar í fullri lengd, Lang historie kort (2015), kom henni á kortið í heimalandinu og hlaut verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki (Mille Lehfeldt) og besta handrit (el-Toukhy, Maren Louise Käehne) á dönsku Bodil-hátíðinni, sem er hátíð kvikmyndagagnrýnenda. Myndin hlaut einnig dönsku Robert-verðlaunin fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki (Trine Dyrholm).

Önnur kvikmynd el-Toukhy í fullri lengd, Dronningen, var einnig gerð í samstarfi við handritshöfundinn Maren Louise Käehne og framleiðandann Caroline Blanco, sem hún kynntist í kvikmyndanáminu. Myndin var heimsfrumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni 2019 og hlaut þar áhorfendaverðlaun í flokknum World Cinema Dramatic Competition.

Einnig hlaut hún verðlaun sem besta norræna myndin, fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki og áhorfendaverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg og verðlaun fyrir bestu leikstjórn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Transilvaníu.

Auk kvikmynda í fullri lengd hefur el-Toukhy leikstýrt leikritum í útvarpi og á sviði og þáttum í hinum verðlaunuðu dönsku sjónvarpsþáttaröðum Erfingjunum og Vegum drottins.

Handritshöfundur – Maren Louise Käehne

Maren Louise Käehne (1976) útskrifaðist sem handritshöfundur frá Kvikmyndaháskóla Danmerkur árið 2009. Að því loknu nam hún handritaskrif við Columbia-háskóla í New York.

Hún hefur skrifað handrit að myndum May el-Toukhy, Lang historie kort og Dronningen, leikstjórnarfrumraun Ali Abbasi Shelley og þáttum í hinum vinsælu dönsku þáttaröðum Borginni og Brúnni.
 

Framleiðandi – Caroline Blanco

Caroline Blanco (1980) útskrifaðist sem kvikmyndaframleiðandi frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 2009. Hún framleiddi verðlaunamyndir May el-Toukhy, Lang historie kort og Dronningen, auk unglingamyndanna Dannys dommedag eftir Martin Barnewitz og Anti eftir Morten BH.

Framleiðandi – René Ezra

René Ezra (1971) starfar hjá framleiðslufyrirtækinu Nordisk film í Danmörku. Hann útskrifaðist sem kvikmyndaframleiðandi frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 2003. Hann hefur framleitt mikinn fjölda mynda, svo sem stuttmyndina Helmer & søn (2006) sem hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna, verðlaunamyndir Michaels Noer R (sem Noer leikstýrði ásamt Tobiasi Lindholm), Nordvest, Nøgle hus spejl og Før frosten, Kapringen eftir Tobias Lindholm og myndina Krigen, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Hann hefur einnig komið að hinni vinsælu kvikmyndaröð Klassefesten 1, 2 og 3 og teiknimyndinni Olsen-banden på dybt vand.


Dronningen er fyrsta myndin sem hann vinnur í samstarfi við May el-Toukhy.

Ezra var valinn „Producer on the Move“ á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2006.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Dronningen

Leikstjórn: May el-Toukhy

Handrit: Maren Louise Käehne, May el-Toukhy

Framleiðendur: Caroline Blanco, René Ezra

Aðalhlutverk: Trine Dyrholm, Magnus Krepper, Gustav Lindh

Framleiðslufyrirtæki: Nordisk Film Production

Lengd: 127 mínútur

Dreifing innanlands: Nordisk Film Distribution

Alþjóðleg dreifing: TrustNordisk