Ellen Strömberg

Ellen Strömberg
Ljósmyndari
Jennifer Granqvist
Ellen Strömberg: Vi ska ju bara cykla förbi. Unglingaskáldsaga, Schildts & Söderströms og Rabén & Sjögren, 2022. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur

Manda og Malin eru í níunda bekk og bíða þess að lífið hefjist fyrir alvöru. En hvernig? Í bænum þeirra gerist aldrei neitt. Með útþrána sem eldsneyti hjóla stelpurnar hring eftir hring um smábæinn. Þær hanga niðri á strönd, á leikvellinum, við sjoppuna og á bókasafninu – stöðum sem verða að skjóli fyrir óskýrar hugmyndir þeirra um hvað felst í því að vaxa úr grasi, verða að annarri manneskju og leggja undir sig heiminn.

 

Unglingabók Ellenar Strömberg Vi ska ju bara cykla förbi (2022) („Við hjólum bara framhjá“, ekki gefin út á íslensku) lýsir togstreitu táningsáranna á einlægan og trúverðugan hátt. Stelpurnar dreymir um að vera „leyndardómsfullar“ og „svalar“, um að fá að upplifa hina stóru ást unglingsáranna sem lýst er í öllum bandarískum sjónvarpsþáttaröðum og um að flytja til New York einhvern daginn. Þær hafa þó enga skýra hugmynd um hvernig þetta muni allt saman gerast, hvað þær vilja í rauninni og hvað þær geta höndlað. Tveir eldri strákar í bænum verða viðföng kærastaverkefnis stelpnanna sem leiðir þær – dálítið hikandi – frá niðurdrepandi örygginu í fjölskylduboði á páskunum og í subbulegt fylleríispartí í borginni sem þær voru ekki einu sinni boðnar í. Þær ætla jú, eins og Malin bendir þrjóskulega á, ekki einu sinni að fara í partíið, heldur „hjóla þangað og bara sjá aðeins hvernig það er.“

 

Manda og Malin eru bestu vinkonur en vinátta þeirra er langt í frá laus við flækjur. Þær peppa hvor aðra upp, ergja sig hvor á annarri og þræta hvor við aðra á víxl. Oftast er frelsandi skellihlátur skammt undan en einnig má lesa alvarlegri undirtóna á milli línanna. Hin ögrandi uppreisnargirni unglingsáranna er nátengd berskjaldaðri viðkvæmni, meira að segja hjá Malin sem er áhættusæknari en Manda. Stærri stúlknavináttu og samstöðu sem brúar kynslóðabil er svo lýst þegar eldri systir Möndu – sem sér hlutina óþægilega skýrt í fyrstu – kemur stelpunum til bjargar ásamt vinkonum sínum eftir að kærastaverkefnið fer út um þúfur.

 

Prósi Strömberg er glitrandi tær og skýr. Persóna og rödd Möndu, sem segir söguna, slær hárréttan tón. Af aðdáunarverðu öryggi fangar Strömberg tilfinninguna fyrir stórbrotnum framtíðardraumum unglingsáranna sem mynda algera andstæðu við grámygluna í óspennandi hversdagsleikanum. Vi ska ju bara cykla förbi er bók sem iðar af lífi og tilhlökkun og sýnir að raunsæislegar unglingabækur eiga enn fullt erindi.

 

Ellen Strömberg (f. 1987) er finnlandssænskur verðlaunahöfundur sem skrifar fyrir börn og unglinga jafnt sem fullorðna. Hún steig fyrst fram á ritvöllinn árið 2018 með skáldsögunni Jaga vatten. Vi ska ju bara cykla förbi (2022) er fyrsta unglingabók Strömberg. Fyrir hana fékk hún tilnefningu til Finlandia-verðlaunanna í flokki barna- og unglingabóka og hlaut auk þess August-verðlaunin fyrir bestu barna- og unglingabókina sem rituð var á sænsku árið 2022.