Emilíana Torrini

Emilíana Torrini
Photographer
The Colorist
Emilíana Torrini er á meðal þeirra 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Emilíana Torrini er fædd árið 1977 og á ítalskan föður og íslenska móður. Hún varð snemma þjóðþekkt á Íslandi fyrir tónlist sína, en hefur síðan getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir meistaralegar lagasmíðar og tónlistarflutning sem sameinar fágun og tilfinningalega beinskeyttni á einstakan hátt.

Eftir að hafa gefið út tvo geisladiska á Íslandi 1995 og 1996 flutti Emilíana til Lundúna árið 1997. Áður hafði hún sungið inn á plötu hljómsveitarinnar GusGus, sem einnig gerði garðinn frægan utan landsteinanna, en Emilíana hafði sín eigin áform.

Hún hóf alþjóðlegan feril sinn í Lundúnum hjá útgáfufyrirtækinu One Little Indian sem einnig hefur gefið út tónlist Sykurmolanna, Bjarkar og fleira íslensks tónlistarfólks. Því næst hóf hún samstarf við hið þekkta útgáfufyrirtæki Rough Trade í Bretlandi og gaf út þrjár plötur undir þeirra merkjum. Árið 2009 sló lag hennar Jungle Drum í gegn í Þýskalandi svo um munaði.

Emilíana hefur margsinnis hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir söng sinn. Hennar helsti samverkamaður í lagasmíðum hefur verið Dan Carey. Þau sömdu saman lögin á plötunum þremur sem Emilíana gaf út hjá Rough Trade, en einnig hafa þau samið lög fyrir aðra söngvara, svo sem Kylie Minogue.

Upp á síðkastið hefur hún starfað með hljómsveitinni The Colorist. Hefur samstarf þeirra hlotið lof tónlistargagnrýnenda um allan heim, en með því þykir Emilíana enn og aftur hafa endurskapað hljóm sinn.