Empire - Danmörk

Viften
Ljósmyndari
Håvard Schei
Kvikmyndin „Empire“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

St. Croix, Dönsku Vestur-Indíum, 1848. Anna Heegaard og Petrine eru nánar vinkonur. Báðar eru þær þeldökkar en kringumstæður þeirra eru afar ólíkar – Anna er frjáls og á ambáttina Petrine. Anna býr á sveitasetri sínu ásamt lífsförunauti sínum, danska nýlendustjóranum Peter von Scholten. Þar hefur hún umsjón með heimilinu, auði sínum og Petrine, sinni ástkæru og traustu ráðskonu. Allt virðist leika í lyndi uns orðrómur um uppreisn fer á kreik. Í hvoru liðinu eru þær Anna og Petrine þegar allt kemur til alls og er það sama liðið?

Rökstuðningur

Það er metnaðarfullt í sjálfu sér að búa til kvikmynd um viðfangsefni sem hefur verið skammarlega lítið rætt í sögu Danmerkur: þrælasölu Dana á vesturindísku eyjunum. Hins vegar þarf verulegan kjark til að gera það á líflegann hátt, þar sem háðsádeila blandast við dramatískan alvöruþunga í lýsingum á vináttu tveggja svartra kvenna sem tilheyra mismunandi stéttum á St. Croix fram að þrælauppreisninni 1848.

Þetta er það sem gerir Empire einstaka í danskri kvikmyndasögu og einnig í norrænu samhengi. Anna Neye, sem er handritshöfundur og hugmyndasmiður myndarinnar, dregur í samstarfi við leikstjórann Frederikke Aspöck upp lýsingu á hinum alltumlykjandi rasísku valdaformgerðum dönsku nýlendustjórnarinnar – lýsingu sem er bæði beitt og full af réttlátri reiði. Umgjörðin einkennist af frumlegri fagurfræði með áberandi hljóðheimi og áhrifaríkri leikmyndahönnun, sem undirstrikar fáránleika voðaverkanna. Langflestar sögulegar kvikmyndir halda sig á öruggum og traustum slóðum, en Empire losar sig djarflega undan öllum hefðum formsins.

Danska dómnefndin er því á einu máli um að leggja þessa kvikmynd fram til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Handritshöfundur – Anna Neye

Anna Neye (f. 1969) er handritshöfundur, leikstjóri og leikkona. Hún nam við Arts Educational Schools í Lundúnum, síðar við Kvikmyndaskóla Danmerkur og lauk þaðan gráðu í handritaskrifum árið 2005. Sem handritshöfundur hefur hún meðal annars unnið að grínþættinum Normalerweize (2004), þáttaröðinni Tvillingerne & Julemanden (2013) og Fra kolonimagt til kolonihavemagt (2015), sketsaþætti í háðsádeilustíl um nýlendusögu Danmerkur. Neye fjallar áfram um það viðfangsefni í Empire, þar sem hún leikur einnig aðahlutverkið. Myndin var heimsfrumsýnd í samkeppni á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg, í flokknum Besta norræna myndin. Sjá IMDB:

Leikstjóri – Frederikke Aspökk

Frederikke Aspöck (f .1974) er þaulreyndur handritshöfundur, leikstjóri og tónskáld. Hún lauk MFA-gráðu í kvikmyndagerð frá Tisch School of the Arts í New York-borg og BA-gráðu í leikmyndahönnun frá Wimbledon-listaskólanum í Lundúnum. Útskriftarstuttmynd hennar frá Tisch School, Happy Now, (2004) hlaut fyrstu verðlaun Cannes Cinéfondation. Fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd, Labrador, var heimsfrumsýnd á Cannes 2011 í flokknum Un Certain Regard og vann til verðlauna sem besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Marrakess. Önnur kvikmynd hennar, Rosita, hlaut tvær tilnefningar á dönsku Roberts-verðlaununum og vann til verðlauna fyrir bestu leikstjórn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Moskvu. Þriðja mynd hennar í fullri lengd, De frivillige (2019), var heimsfrumsýnd í Rotterdam og hlaut afar góða aðsókn í dönskum kvikmyndahúsum. Empire var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2023.

Framleiðandi – Meta Louise Foldager Sørensen

Meta Louise Foldager Sørensen (f. 1974) er á meðal virtustu sjálfstæðu kvikmyndaframleiðenda í Danmörku. Hún er einnig framkvæmdastjóri SAM Productions og systurfyrirtækis þess, Meta Film. Hún lauk meistaragráðu í kvikmyndafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Foldager Sørensen hefur verið framleiðandi, yfirframleiðandi og meðframleiðandi yfir 60 stuttmynda, kvikmynda í fullri lengd og leikinna þáttaraða undanfarna tvo áratugi og hefur starfað með virtum leikstjórum á borð við Lars von Trier, Nikolaj Arcel, Pernille Fischer Christensen, Mikkel Munch-Fals, Kasper Barfoed, Per Fly, Ali Abbasi og Björn Runge. Á meðal fjölmargra verðlaunamynda hennar eru En kongelig affære, sem hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna, The Wife, myndin Melancholia sem vann til verðlauna í Cannes, og hinar vinsælu sjónvarpsþáttaraðir Borgen, The Chestnut Man og Hljómsveitin. Síðast vann hún að Netflix-þáttaröðinni The Nurse og kvikmyndinni Empire.

Framleiðandi – Nina Leidersdorff

Nina Leidersdorff er kvikmyndaframleiðandi og starfar sem stendur hjá framleiðslufyrirtækinu SAM Productions í Kaupmannahöfn. Hún lauk meistaragráðu í kvikmyndaframleiðslu frá American Film Institute í Los Angeles og BA-gráðu í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún gekk til liðs við SAM Productions árið 2020 eftir að hafa starfað um árabil í Bandaríkjunum sem yfirmaður þróunar og framleiðslu hjá Primeridian Entertainment. Á meðal kvikmynda í fullri lengd sem hún hefur unnið að eru hin margverðlaunaða The Story of Luke (2012) eftir Alonso Mayo, In Embryo eftir Ulrich Thomsen (2016) og Empire eftir Frederikke Aspöck. Hún framleiddi einnig sjónvarpsþáttaröðina The Nurse fyrir Netflix (2023).

Framleiðandi – Pernille Munk Skydsgaard

Pernille Munk Skydsgaard (f .1971) lauk BA-gráðu í hagfræði og meistaragráðu í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Einnig stundaði hún nám við UCLA í Bandaríkjunum. Undanfarin 25 ár hefur hún starfað í dönskum sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, bæði fyrir ríkisstöðvar og í einkageiranum, á sviðum framleiðslu, dreifingar, fjármögnunar og skipulagningar sjónvarps- og kvikmyndahátíða. Síðast var hún framleiðandi hjá hinu kraftmikla framleiðslufyrirtæki Drive Studios (2021–2022) og systurfyrirtækjunum Meta Film og SAM Productions (2019–2021). Hún hefur meðal annars framleitt YouSee-þáttaröðina Sunday, sem var valin besta háðsádeilan í sjónvarpi á Copenhagen TV Festival 2020, fjölskyldumyndina Kaptajn Bimse eftir Kirsten Skytte og Thomas Borch Nielsen og Empire, sem var framlag Danmerkur í ár sem besta norræna myndin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Viften

Alþjóðlegur titill: Empire

Leikstjóri: Frederikke Aspöck

Handritshöfundur: Anna Neye

Framleiðendur: Pernille Munk Skydsgaard, Nina Leidersdorff, Meta Louise Foldager Sørensen

Framleiðslufyrirtæki: Meta Film

Lengd: 114 mínútur

Dreifing í Danmörku: SF Studios

Alþjóðleg dreifing: REinvent