Hanne Kvist

Hanne Kvist
Photographer
Forlaget Gyldendal
Hanne Kvist: To af alting (Tvennt af öllu). Gyldendal 2013

Hanne Kvist (fædd 1961) er rithöfundur og myndskreytir og bæði þessi tjáningarform fá að njóta sín með sannfærandi hætti og í gefandi samspili í myndabókinni To af alting (Tvennt af öllu).

Foreldrar segja syni sínum að hann fái tvennt af öllu vegna þess að þau ætli að skilja. En heimur drengsins fýkur um koll. Hann hefur hundinn sin Uffe en finnst hann að öðru leyti umkringdur af hálfum hlutum. Hann vill bara hafa tvo foreldra og eitt af öllu öðru.

Frásögnarhátturinn er jarðbundinn, lýsandi og einfaldur og það gildir einnig þegar skýstrokkurinn sem myndlíking fer um tilveru hans og klýfur heimili hans. Gleðiboðskapur foreldranna um ávinning drengsins af skilnaðinum lifir áfram í frásögninni af því þegar foreldrarnir hvor um sig kynna nýja stjúpforeldra, ný systkini og nýjan hund, Effu. En eyðileggingin af völdum skýstrokksins og atorka Uffes er á skjön við útgáfu foreldranna af veruleikanum.

Myndmálið sýnir með einföldum strikum, skýrum útlínum og frábærum samklippum þá upplausn heimsins sem drengurinn upplifir: Helmingað hús, helmingað píanó, helmingað sjónvarp og helmingaður sófi. Skýrt merki um þróun þessara náttúruhamfara er að sjóndeildarhringurinn færist stöðugt ofar á aflöngum síðum bókarinnar. Þar með verður himinninn, sem annars er gerður úr örk úr bókhaldsbók og nafnaskrá úr landabréfabók, samanpressaður en yfirborð jarðar breiðir úr sér á myndinni þannig að hundurinn getur grafið fyrir heimili neðanjarðar.

Þar koma drengurinn og hundurinn sér fyrir með sjónvarpið, sófann og píanóið, sem búið er að gera við, og faðirinn og móðirin geta komið í heimsókn hvort í sínu lagi í það sem drengurinn segir sjálfur að sé ekki „leikkofi, þetta er heimili“.

Hanne Kvist hefur tekist að búa til trúverðuga myndabók sem stöðugt heldur sig við sjónarhorn barnsins. Hægt og rólega og með óbilandi öryggi kemur hún því til skila með sérlega velheppnaðri víxlverkun texta og myndmáls að skilnaðurinn fer ekki fram barnsins vegna og að það sem virðist vera ávinningur er í raun tap.

Í lok sögunnar To af alting má eigi að síður greina vonarneista og er það vegna þess að söguhetjunni hefur tekist að búa til eigin heildstæðan heim sem er aðgreindur frá heimi hinna fullorðnu.