Kupla – Finland

Kupla
Ljósmyndari
Anni Hartikainen
Kvikmyndin „Kupla“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Eveliina er 16 ára frjálsleg unglingsstúlka sem á náinn vinahóp og ástríka foreldra. En veröld hennar hrynur í einni svipan þegar hún kemst að því að móðir hennar heldur við konu. Hún gerir allt sem hún getur til að stöðva ástarsamband þeirra svo að foreldrar hennar nái aftur saman. Þegar hún áttar sig á því að hún sjálf er límið sem heldur foreldrunum saman gerir hún áætlun sem hefur bæði dramatískar og skoplegar afleiðingar.

Rökstuðningur

Kupla er hugvitssamlega fyndin kvikmynd, gerð af óvenjumiklu öryggi, fjallar um fjölskylduleyndarmál og það að fullorðnast. Áður en yfir lýkur umbreytist drungi vetrarins í hlýju og börn verða kennarar foreldra sinna. Handrit Aleksi Salmenperä, leikstjóra myndarinnar og Reetu Ruotsalainen býður upp á sjónarhorn tveggja ættliða og sýn myndarinnar á finnskan smábæ – og finnskt hversdagslíf í dag. Myndin er fersk, nútímaleg og beitt.

Handritshöfundur – Reeta Ruotsalainen

Reeta Ruotsalainen (f. 1984) útskrifaðist frá Aalto-háskólanum í Helsinki árið 2017. Útskriftarmynd hennar, Now That You’re Mine, var tilnefnd til verðlauna fyrir besta frumsamda handrit á kvikmyndahátíðinni Terror in the Bay. Hún var handritshöfundur nokkurra þátta í annarri þáttaröð glæpaframhaldsþáttanna Ivalo og meðhöfundur þáttaraðarinnar Dance Brothers, sem framleidd var af Netflix í samstarfi við finnsku ríkisstöðina Yle. Kupla er fyrsta mynd hennar í fullri lengd. Ruotsalainen vinnur nú að handriti nýrrar myndar sem nefnist Defiance á ensku.

Leikstjóri og handritshöfundur – Aleksi Salmenperä

Aleksi Salmenperä (f. 1973) er einn virtasti handritshöfundur og leikstjóri Finna. Hann hefur leikstýrt yfir 20 stuttmyndum, kvikmyndum og þáttaröðum síðan seint á 10. áratugnum og hafa margar þeirra verið frumsýndar á virtum alþjóðlegum hátíðum svo sem í San Sebastián (Miehen työ, 2007), Berlín (Paha perhe, 2009), Hot Docs (Alaska Highway, 2013) og í Gautaborg (Jättiläinen, 2016). Hann hlaut finnsku Jussi-verðlaunin sem besti leikstjóri fyrir myndirnar Häiriötekijä (2016) og Tyhjiö (2019), sem hlaut einnig Jussi-verðlaun sem besta myndin. Kupla var tilnefnd til sex Jussi-verðlauna 2023 og hlaut verðlaun í flokknum Besti nýliðinn (Stella Leppikorpi).

Framleiðandi – Minna Haapkylä

Minna Haapkylä (f. 1973) hefur getið sér gott orð sem leikkona og framleiðandi á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi og er nú yfirmaður handrita hjá Rabbit Films. Hún nam við leiklistardeild listaháskólans í Helsinki í Finnlandi og Conservatoire National Supérieur d’Art Dramatique í Frakklandi, hefur komið fram í yfir 60 leikritum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttaröðum og hlotið fjölmörg Jussi-verðlaun í heimalandinu, þar á meðal sem besta leikkona fyrir myndina Kuulustelu eftir Jörn Donner (2009).

Sem framleiðandi hefur hún meðal annars komið að þáttaröðinni Made in Finland á vegum MTV/C og Munkkivuori – sem vann fern sjónvarpsverðlaun í heimalandinu, meðal annars sem besta þáttaröðin – og kvikmyndunum MC Helper BeKINGs, sem hlaut áhorfendaverðlaun á Jussi-verðlaununum 2023 og Bubble, sem Stella Leppikorpi hlaut Jussi-verðlaun fyrir sem besti nýliðinn. Á meðal næstu verkefna Haapkylä er þáttaröð Tiinu Lymi, sem nefnist á ensku Queen of Fucking Everything.

​​​​​​​Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Kupla

Alþjóðlegur titill: Bubble

Titill á sænsku: Bubblan

Leikstjóri: Aleksi Salmenperä

Handritshöfundar: Reeta Ruotsalainen, Aleksi Salmenperä

Framleiðandi: Minna Haapkylä

Framleiðslufyrirtæki: Rabbit Films

Lengd: 103 mín

Dreifing í Finnlandi: Aurora Studios

Alþjóðleg dreifing: The Yellow Affair