Simon Stranger

Simon Stranger
Photographer
Observatoriet
Simon Stranger: De som ikke finnes. Unglingaskáldsaga, Cappelen Damm, 2014

Fyrir þremur árum fann hin fimmtán ára gamla Emilie ungan afrískan flóttamann að nafni Samuel á floti úti fyrir ströndum Gran Canaria, og bjargaði honum upp á þurrt land. Næstu daga hafði hún í nógu að snúast við að útvega Samuel mat og húsaskjól og þegar lögreglan kom að sækja hann gaf hún honum miða með heimilisfanginu sínu.

Nú stendur Samúel fyrir utan herbergisgluggann hennar. Hann hefur flúið norður á bóginn gegnum Evrópu, verið þrælkaður og misnotaður kynferðislega og nú er hans síðasta von að Emilie og Noregur geti veitt honum líf sem sé þess virði að lifa. Fyrri fundur þeirra tendraði neista innra með Emilie sem með tímanum varð að sterkri félagslegri ábyrgðartilfinningu, en þetta er áskorun af nýjum toga. Nú knýr neyðin bókstaflega dyra og með því að hjálpa ólöglegum innflytjanda stofnar Emilie eigin framtíð í hættu. Og hvað getur átján ára norsk stelpa eiginlega gert við öllu því sem amar að heiminum?

De som ikke finnes er þriðja og rismesta sagan í unglingabókaflokki Simons Stranger um norska táninginn Emilie, sem þarf að horfast í augu við þann hrikalega mun sem er á lífsskilyrðum fólks víðsvegar um heiminn. Þema sögunnar er pólitískt málefni sem er ofarlega á baugi; ólöglegir flóttamenn, en höfundi tekst jafnframt að halda söguþræðinum á almennara sviði. Með jöfnu millibili flakkar vitundarmiðja sögunnar milli Samuels og Emilie og þannig kemur glöggt í ljós hvernig örlög þeirra hafa mótast af ólíkum uppruna hvors um sig. Emilie getur ekki að því gert að hafa fæðst rík, ekki frekar en Samuel getur gert að því að hafa fæðst fátækur. Og ættu einnig þau sem engu ráða að finna til ábyrgðar og sektarkenndar vegna óréttlætisins sem viðgengst í heiminum? De som ikke finnes er sterk frásögn á yfirveguðu, stílhreinu og bókmenntalegu máli. Sagan býður lesandanum að skyggnast inn í hrottafenginn og örvæntingarfullan kima tilverunnar, sem einskorðast ekki við fjarlæga og framandi staði heldur leynist í myrkum skúmaskotum hins örugga samfélags í Noregi.

Simon Stranger (f. 1976) gaf út fyrstu bók sína 2005 og hefur skrifað fyrir börn, unglinga og fullorðna. Fyrri unglingasögur hans um Emilie, Barsak (2009) og Verdensredderne (2012), hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál.