Therese Bohman: Den andra kvinnan

Therese Bohman
Photographer
Sara Mac Key
Skáldsaga, Norstedts, 2014

Den andra kvinnan er skáldsaga um ást og kynferði, stéttir og vald, hið kvenlega og hið karlmannlega. Ung kona kynnist eldri manni og þau hefja ástarsamband. Hún vinnur í eldhúsi á spítala en hann er yfirlæknir. Hér dregur Therese Bohman upp kunnugleg stef og beinir þeim í bæði fyrirsjáanlegar og óvæntar áttir. Ástríða getur sprottið fram innan um matarleifar og óhreina diska og þráin eftir að losna úr viðjum vanans getur leitt til skaðlegra ákvarðana. Unga konan sem segir söguna er letingi í hugsunum sem gjörðum. Hún les bókmenntir, sækir námskeið í skapandi skrifum og dreymir um rithöfundarferil. Hún leitar hugmynda og staðar til að tilheyra, en lendir í pattstöðu milli ólíkra hlutverka. Reiði í garð stéttskiptingar og þvingandi formgerðar samfélagsins myndar rauðan þráð gegnum textann. Den andra kvinnan er nautnaleg skáldsaga með meitluðum texta, full af myndum, ilmi og litum og umhverfið kallar fram tilfinningar, andrúmsloft og hughrif. Hún getur fjallað um mistraðar götur á fögrum nóvemberdögum, en allt eins um rjúkandi framleiðslueldhús og þröngar stúdíóíbúðir á jarðhæð.

Therese Bohman er fædd 1978 og hefur starfað sem ritstjóri og bókmennta- og listgagnrýnandi. Den andra kvinnan er önnur skáldsaga hennar en sú fyrri, Den drunknade, kom út 2010. Bohman hlaut nýlega menningarstyrk Norrköping-borgar sem veittur er í minningu Mou Martinson.