Tomas Espedal

Tomas Espedal
Photographer
Dag Knudsen
Tomas Espedal: Bergeners. Skáldsaga, Gyldendal, 2013

Með bókunum Biografi (1999), Dagbok (2003), Brev (2005), Gå. Eller kunsten å leve et vilt og poetisk liv (2006), Imot kunsten (2009) og Imot naturen (2011) hefur Tomas Espedal (f. 1961) skapað sína eigin tegund bókmennta innan norskra bókmennta: Annars vegar fjallar bókin um játningar sem fjalla um rithöfundinn og líf hans. Hins vegar er hún nákvæmlega útfært bókmenntaverk þar sem hver setning virðist þurfa að fara í gegnum ljóðrænt gæðapróf. Rithöfundurinn leitar að sannleikanum um sjálfan sig og fegurðina í sjálfum sér. Í bókunum eru fáar beinar og hráar uppljóstranir, heldur snúast þær um stemningu og tilfinningar sem ekki verða aðgengilegar nema í gegnum fagurbókmenntir.

Í Bergeners (2013) heldur þetta verkefni áfram og endurnýjast. Margt í bókinni fjallar um ástarsorg sem kallast á við náttúruna. Jafnframt er dóttir höfundar orðin fullorðin og flutt að heiman og hann snýr ávallt til baka til móðurinnar sem er látin og minninga frá barnæsku. Mikilvægt atriði í bókinni lýsir því hvernig Espedal heldur upp á fimmtugsafmæli sitt einn síns liðs. Hann bæði nýtur og kvelst vegna einsemdar sinnar. Það er hún sem skapar listina en inniheldur einnig raunverulegan sársauka.

Bókin er brotakennd og óútreiknanleg. Í einum kafla hittir hann Dag Solstad í Madrid og fær ráðleggingar um hvernig skoða á svört málverk Goya, og í öðrum er hann í New York með kærustunni. Hann ferðast um stærri borgir Norðurlanda en mest er hann í Bergen. Titill bókarinnar vísar í James Joyce og bók hans Dubliners, og mörgum þekktum Bergenbúum er lýst á skemmtilegan hátt.

Annar prósalýrískur hápunktur er í því sem Espedal kallar „Balladen om Danmarksplass“, þéttbýlasta svæði í Bergen og stærstu gatnamót með stórum fjölbýlishúsum og kirkjugarði nálægt. Espedal bjó áður í nágrenninu og kvæðið fær eigin stórborgarleiða, sem er einkennandi fyrir stíl Espedal og tón:

 

Bíll lendir á öðrum og tvær kærustur deyja, 

allt sem þú þarft til að deyja er á Danmarksplass.

 

Þar er grafreitur í bakkanum ofan við Fjøsangerveien.

Það er bensínstöð í Michael Krohns götu.

 

Það er tóm íbúð í Ibsens götu. Þar bjó Charlotte 

einu sinni.

 

Ó Danmarksplass. Án Danmerkur. Án Charlotte, án Josefine, án Olgu, 

án Stine, án Suzanne, án 

 

Piu, án Mette, án Amalie, án Maju, ánJanne;  

hvað gerir maður eiginlega hér í þessum nafnlausu götum?

 

Án borgar. Bara torg þar sem bílarnir mætast á 

hraðferð sinni. Bara götur, engin borg. Enginn skógur.

 

Engin tré. Engir akrar eða mýri. Engin dýr. Engin  

á. Bara þessi tímalausi straumur umferðar sem

 

rennur sem seytlar sem drynur sem liðast hjá.

Sem rennur í stríðum straumum framhjá Einskistorginu.