Ulf Stark & Linda Bondestam (myndskr.)

Djur som ingen sett utom vi
Ulf Stark & Linda Bondestam (myndskr.): Djur som ingen sett utom vi. Ljóðabók, Berghs Förlag, 2016

Í litskrúðugum myndum með djúprauðum himni og ákaflega blágrænum skógum, hafi og fjöllum, búa dýr sem enginn hefur séð nema þau Ulf Stark og Linda Bondestam. Þar leynast meðal annars Daglingurinn, sem lifir aðeins í einn dag, hin sjaldséða Selansetta, Bommbomminn, Dokdýrið og Uss. Þessar verur minna á þær sem við þekkjum úr dýraríki okkar, en eru þó frábrugðnar þeim. Margar minna frekar á íbúa Múmíndalsins.

Í raun líkjast dýrin í Djur som ingen sett utom vi („Dýr sem enginn hefur séð nema við“, hefur ekki komið út á íslensku) þó fyrst og fremst okkur mannfólkinu. Mörg þeirra eru einmana sálir sem eiga erfitt með að sættast við lífið og tilveruna. Hin einmana Eskalópa hugsar með sér: „Allt passar saman í heiminum. / Allt nema ég.“ Nómadínan „lifir í þeirri trú / að allt sé miklu betra annarsstaðar“. Fæst dýranna eru í raun sérlega ánægð. Þau upplifa miklar geðsveiflur, finna til framandleika gagnvart eigin líkama eða dreymir um eitthvað annað en það sem þau hafa.

Allt verður þetta ómótstæðilegt í meðförum Ulfs Stark, sem lætur hið kímna og sniðuga renna saman við depurðina sem einnig býr í ljóðunum. Í sumum ljóðanna verður dapurleikinn þó allsráðandi. Það á einkum við um hið fallega ljóð „Fågel fri“, en það er tileinkað finnlandssænska rithöfundinum Stellu Parland sem lést fertug að aldri árið 2015:

Þú söngst svo fagurt: Anarkí!

svo maður komst í gott skap.

Þú litli fugl, Fuglinn frjáls,

svo flaugstu á brott, nú spyrjum við oss:

Hví?

En í draumnum ertu við

milli fimm og sjö

Parland og Bondestam unnu saman að mörgum bókum og tregablandinn tónn ljóðsins er engin tilviljun. Á vinstri síðu opnunnar rignir tárum yfir dapra, gráa fugla sem hafast þar við. Á hægri síðunni flýgur lítill rauður fugl gegnum grábleikt, draumkennt og angurvært landslag sem minnir á japanska tréristu. Trén tvö á myndinni teygja stökkar greinarnar í átt að fuglinum og haf og himinn renna saman á táknrænan hátt.

Þessi opna er þó frábrugðin öðrum opnum bókarinnar. Á þeim ráða ríkjum dýr sem eru full af lífi, litadýrð og hugmyndaauðgi, eru frumleg og persónuleg hvert á sinn hátt. Skondið rím og fjarstæðukenndir orðaleikir Ulfs Stark og skrautlegar myndir Lindu Bondestam mynda heildstæða lestrar- og listupplifun.

Ulf Stark á meira en fimmtíu ára rithöfundarferil að baki. Hann sló fyrst í gegn með unglingaskáldsögunni Ein af strákunum (Dårfinkar och dönickar), sem hlaut fyrstu verðlaun í barnabókasamkeppni útgáfunnar Bonniers Juniorförlag árið 1984. Síðan hefur hann hlotið fjölda virtra verðlauna fyrir bækur sínar, bæði í Svíþjóð og erlendis. Linda Bondestam er myndlistarkona og teiknari. Hún hefur myndskreytt tuttugu og fimm bækur, meðal annars I en grop i Kalahari (2007) og Allan och Udo (2011 ásamt Minnu Lindeberg, og Gnatto Pakpak(2010) ásamt Stellu Parland. Ulf Stark og Linda Bondestam hafa sent frá sér þrjár aðrar bækur í sameiningu: Diktatorn (2010), Allt det här (2012) og Min egen lilla liten (2014). Djur som ingen sett utom vi var tilnefnd til Augustverðlaunanna 2016 og hlaut Snjóboltaverðlaunin í flokki myndabóka sama ár.