Christina Åstrand

Christina Åstrand
Photographer
Christina Åstrand
Christina Åstrand er á meðal þeirra 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Christina Åstrand (f. 1969) er einstaklega athyglisverður og fjölhæfur fiðluleikari sem hefur getið sér gott orð sem einleikari, flytjandi kammertónlistar og konsertmeistari hjá Sinfóníuhljómsveit danska ríkisútvarpsins (DR). Síðastnefndu stöðuna hreppti hún aðeins 22ja ára gömul árið 1993 og hefur gegnt henni síðan. Á ferli sínum sem einleikari og kammertónlistarflytjandi hefur hún flutt allt frá sígildum meistaraverkum til nútímatónverka og er þekkt fyrir áhugaverða og persónulega túlkun, hvort sem um ræðir sígild eða nýrri verk.

Hún hefur frumflutt fjölda fiðlukonserta og spilað þá inn á upptökur og er ein af fáum fiðluleikurum heims sem hafa hinn fræga fiðlukonsert Györgys Ligeti á valdi sínu. Upptaka af flutningi hennar ásamt sinfóníuhljómsveit DR og Thomasi Dausgaard á fiðlukonsertum eftir Ligeti og Per Nørgård hlaut hin virtu frönsku verðlaun Diapason d‘Or árið 2001.

Hún hefur leikið þekkta sígilda fiðlukonserta með fjölda sinfóníuhljómsveita, einkum í norrænu löndunum, og einkum hefur geisladiskur með flutningi hennar á konsertum eftir Niels W. Gade, Lange Müller og Rued Langgaard átt vinsældum að fagna um allan heim. Velgengni disksins varð meðal annars til þess að henni var boðið að leika fiðlukonsert Gades ásamt Fílharmóníusveit Chicago-borgar. Hún heldur áfram að fást við danska tónlist í haust, en þá tekur hún upp danskar fiðlurómönsur fyrir fiðlu og hljómsveit ásamt Fílharmóníusveitinni í Turku. Um er að ræða óþekkta tónlist sem tæpast hefur verið tekin upp áður. Diskurinn verður gefinn út af Dacapo.

Ný tónlist hefur ávallt verið Åstrand hjartfólgin. Hér er tilvitnun í hana sjálfa: „Samstarf við núlifandi tónskáld hefur alltaf vakið áhuga minn því það gæðir tónlistina auknu lífi, veitir henni meira vægi; skyndilega er hægt að koma henni í orð. Þá get ég unnið ásamt tónskáldinu að nýjum hljómalitbrigðum og tækni og við finnum innblástur hvort í öðru. Þetta starf hefur varpað alveg nýju ljósi á „gamla“ tónlist fyrir mér. Mér fannst hún takmörkuð af alltof mörgum kennisetningum og reglum og ég hef alltaf upplifað að hefðirnar setji mér skorður.“

Ýmis dönsk tónskáld haf a samið tónverk og tileinkað Åstrand. Hún hefur átt áralangt samstarf við Hans Abrahamsen, en saman stofnuðu þau hljómsveitina Århus Sinfonietta. Helle Nacht, fiðlukonsert Pers Nørgård, varð til í nánu samstarfi við Christinu Åstrand. Hans Abrahamsen hefur samið nýtt einleiksverk fyrir fiðlu og hljómsveit og Niels Rosing-Schow hefur samið fiðlukonsertinn Trees, en bæði bíða þessi verk eftir að vera frumflutt. Pelle Gudmundsen Holmgreen hefur samið verkið For Violin og Orkester, sem hefur verið tekið upp og Dacapo mun gefa út. Þann 5. septemper 2019 mun Christina Åstrand frumflytja tvöfaldan konsert fyrir fiðlu, píanó og hljómsveit eftir Allan Gravgaard Madsen ásamt sinfóníuhljómsveit DR.

Kammertónlist á einnig stóran sess í efnisskrá Christinu Åstrand. Frá árinu 1996 hefur hún leikið í dúóinu Åstrand/Salo ásamt Per Salo píanóleikara, sem auk ótal tónleika hefur einnig gefið út fjölda hljómplatna sem hlotið hafa margvíslegt lof og verðlaun, meðal annars með fiðlusónötum eftir Carl Nielsen. The Danish Horn Trio (Åstrand, Salo og Jakob Keiding) hafa sent frá sér rómaðar plötur með horntríóum eftir Brahms og Ligeti auk Pelle Gudmundsen-Holmgreen, Poul Ruders og Søren Nils Eichberg.