Da Bartali Crew

Da Bartali Crew
Ljósmyndari
Da Bartali Crew
Da Bartali Crew er á meðal þeirra 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Da Bartali Crew er dæmi um margbreytileika tónlistarinnar og jafnframt um skapandi tónlistarflutning þvert á tónlistargreinar. Hópurinn samanstendur af þremur ungum mönnum sem endurskilgreina hugtökin „jam“ og „lifandi tónlistarflutning“ með blöndu raftónlistar og hljóðfæra á borð við hljóðgervla, effektabox, gítara og rafmagnað jafnt sem órafmagnað slagverk.

Da Bartali Crew er fjörug tónleikasveit sem lagar sig að umhverfi og aðstæðum hverju sinni og kemur fram ásamt öðrum hljóðfæraleikurum, söngvurum og röppurum, óháð því hvar í heiminum þeir eru staddir. Tónlistin er mótuð og flutt í samstarfi við gestina á sviðinu og glæsileg sviðslýsing setur punktinn yfir i-ið.

Meðlimir hópsins nefna stíl sinn „live electro“, en hann samanstendur af öllu frá afslappaðri hughrifatónlist til house-raftónlistar og stórfenglega sirkuslegra gagnslagstakta. DBC flytur einnig tónverk með sterkum hughrifum og andrúmslofti sem leiðir hugann að gríðarstórum fossum, eða jörðinni frá sjónarhorni fugls á flugi. Ef tónlist þeirra væri myndlist væri hún litrík, með bæði breiðum strokum og fíngerðum línum, og slagverkið leitast við að slá allt annað en það sem kalla mætti hefðbundinn takt en þó ávallt í sátt við náttúrulegan takt manneskjunnar.

Hugmyndafræði DBC og það hve opinn hópurinn er fyrir samstarfi við annað tónlistarfólk og gestum á eigin tónleikum hefur fleytt þeim langt út fyrir strendur Grænlands, en þeir hafa farið í tónleikaferðalög um Skandinavíu, Evrópu og Suður-Ameríku frá stofnun sveitarinnar árið 2012. Hópurinn hefur ekki gefið út heildstæða plötu, hvorki á föstu né rafrænu formi, en deilir reglulega upptökum af tónleikum sínum á samfélagsmiðlum og YouTube, og lagaupptökum á SoundCloud.

Da Bartali Crew er öðruvísi tónleikasveit sem rannsakar og prófar nýja hluti með glæsilegum árangri.