SVÄNG

Sväng
Photographer
Sväng
SVÄNG er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Munnhörpukvartettinn SVÄNG, stofnaður 2003, hefur sett alveg nýjan staðal í munnhörpuleik með frumlegri og snilldarlegri nálgun sinni á hljóðfærið.

Á ferli sínum hefur SVÄNG leikið á yfir 500 tónleikum í 25 löndum og gefið út átta hljómplötur. Efnisskráin, sem spannar allt frá verkum Síbelíusar til finnskrar tangótónlistar og listfengra tónsmíða meðlimanna sjálfra, ber vitni um að þótt munnharpan láti lítið yfir sér eru möguleikum hennar til listrænnar tjáningar nánast engin takmörk sett. 

Þó að þrír af meðlimum kvartettsins hafi lokið námi frá þjóðlagatónlistardeild Síbelíusar-akademíunnar er SVÄNG allt annað en akademísk sveit. Tónlist hópsins sameinar á listilegan hátt metnaðarfulla tónlist úr óvæntustu tónlistargreinum og undirfurðulega kímni í ætt við kvikmyndir Kaurismäki-bræðra.

SVÄNG býður áheyrendum í ferðalag um óvæntan hljóðheim. Hér eru á ferð fjörugir fjórmenningar sem fara ótroðnar slóðir og hafa verið nefndir „Kronos-kvartett munnhörpunnar, sem býr yfir djúpum metnaði fyrir tónlist og er skemmtileg gjöf til áheyrendahóps síns“  (Songlines Magazine 6/11).