Höskuldur Þórhallsson (Svar på replik)

Information

Speech type
Svar på replik
Speech number
405
Speaker role
Midtergruppen
Date

Forseti. Ég er alveg sammála. En við fórum af stað með umbótaferli einmitt vegna þess að við vildum ná þeim markmiðum sem hér voru nefnd. Þó að við höfum kannski ekki náð eins miklu út úr því og við raunverulega vildum þá tel ég að þau skref sem stigin eru núna séu skref í rétta átt. En ég ítreka það sem ég sagði, ég held að við eigum að halda áfram umbótaferlinu til þess að forgangsraða. Ef forgangsröðunin verður áfram þessi; að halda utanríkismálum hátt á lofti, að halda málum líðandi stundar hátt á lofti, þá tel ég við getum aukið áhuga almennings á Norðurlandaráði.

Vandamál okkar innan Norðurlandaráðs hefur verið að almenningur í löndunum veit ekki almennilega hvað við erum að fást við. Við höfum rætt það mjög ítarlega í forsætisnefnd en þegar almenningur er spurður hvort hann vilji aukið samstarf innan Norðurlandaráðs þá segir hann, já, algjörlega. Þess vegna verðum við að vera sýnilegri og þess vegna verðum við að reyna með einhverjum hætti að ná til almennings. Ég held til dæmis að ef við samþykkjum sjónvarpsverðlaunin, vegna þess að við ræddum það líka í forsætisnefnd hvort að við gætum reynt að vekja áhuga fjölmiðla á Norðurlandaráði, þá gætu slík verðlaun til dæmis verið liður í því að sjónvarpsstöðvarnar væru meira áfram um að sýna verðlaunaafhendinguna í beinni útsendingu. Allt hjálpar þetta okkur í okkar pólitíska starfi. Ef við getum gert starfið markvissara, sem ég er sammála um að við eigum að gera, þá er það ekki bara til þess að vinnan hér verði árangursríkari og skemmtilegri heldur gerir það líka það að verkum að við getum unnið betur fyrir fólkið á Norðurlöndum. Það er það sem við stefnum að, það er fólkið sem við viljum vinna fyrir.

Skandinavisk oversættelse