Norræn yfirlýsing á COP24

13.12.18 | Yfirlýsing
Yfirlýsing norrænna loftslags- og umhverfisráðherra frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum og Álandseyjum á COP24, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Upplýsingar

Adopted
13.12.2018
Location
Katowice

Við, norrænir loftslags- og umhverfisráðherrar frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum og Álandseyjum, fögnum og erum þakklát fyrir skýrslu IPCC um áhrif hnattrænnar hlýnunar um 1,5°C og lýsum alvarlegum áhyggjum af niðurstöðum hennar.  

Saman verðum við að auka framlag okkar til þess að tryggja að hnattræn hlýnun verði undir 1,5 gráðum. COP 24 verður að senda skýr pólitísk skilaboð um að við séum öll tilbúin til að breyta í samræmi við það sem vísindin segja segja til um og að við ætlum að auka metnaðinn gagnvart markmiðum Parísarsamningnsins.

Talanoa-umræðurnar og ótrúlega mikil viðbrögð við loftslagsbreytingum alls staðar að úr heiminum, frá stjórnvöldum, atvinnulífinu, félagasamtökum og einstökum samfélögum, sýna að samfélög með litla losun verða að byggja á breiðu samstarfi milli allra geira og haghafa í samfélaginu.

Samræður og samstarf við atvinnulífið er lykillinn að árangri. Stjórnendur níu norrænna stórfyrirtækja og norrænir ráðherrar hittust á þessu ári við Talanoa-umræðurnar. Auk þess tókum við við hugmyndum frá 38 af stærstu norrænu útflutningsfyrirtækjunum. Meginskilaboðin voru þau að metnaðarfull innlend markmið tengd fyrirsjáanlegri, metnaðarfullri og stöðugri stefnumótun hefðu hvetjandi áhrif á breytingar í átt til hagkerfis með litla losun kolefnis og vaxandi nýsköpun.

Það ræður úrslitum að beina fjárfestingum að sjálfbærum og endurnýjanlegum lausnum. Á árinu 2019 hyggjast norrænir loftslags- og umhverfisráðherrar bjóða fjármálaráðherrum og öðrum samstarfsaðilum og haghöfum úr fjámálageiranum til samræðna um hvernig gera megi fjármálamarkaði grænni.

Reynsla Norðurlanda sýnir að hagvöxtur og þróun þarf ekki að kalla á aukna losun. Breytingin í átt að samfélögum með litla losun skapar samkeppnishæf störf og hvetur til fjárfestinga og nýsköpunar.

Öll norrænu ríkin hafa tekið upp stefnu og leiðir til þess að standa við skuldbindingar sínar. Við höfum sett metnaðarfull markmið um að draga úr losun fyrir 2030 og erum farin að horfa til 2050 í samræmi við Parísasamninginn. Mörg okkar eru með markmið um kolefnisjöfnun og lagasetningu sem snertir loftslagsmál sem stýra sitjandi stjórnvöldum og stjórnvöldum framtíðarinnar í umbreytingunni til sjálfbærra samfélaga með litla losun.

Við erum sterkari þegar við tökumst saman á við loftslagsbreytingar. Auk loftslagsaðgerða okkar heima fyrir ætlum við að halda áfram að leiða saman þekkingu á því hvernig takast má á loftslagsbreytingar með sameiginlegum norrænum verkefnum, innan Norðurlanda og utan.

Við erum sameinuð í samstöðu okkar með þeim ríkjum sem viðkvæmust eru fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Við munum halda áfram að styðja og örva viðleitni þeirra til að auka aðlögunarhæfni og sveigjanleika þeirra og draga úr varnaleysi.

Hér í Katowice verðum við að komast að samkomulagi um sameiginlegar, öflugar og skilvirkar reglur um framkvæmd Parísarsamkomulagsins. Við erum öll staðráðin í að vinna að metnaðarfullum árangri þar sem engin málefni verða útundan. Við skulum leggja okkur öll fram við að ná góðum árangri og standa saman um að COP 24 verði árangursríkt.