Norræn ráðherrayfirlýsing um líffræðilega fjölbreytni, hafið og loftslagsmál

12.05.21 | Yfirlýsing
Seaweed floating in the ocean
Photographer
Shane Stagner - Unsplash.com
Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlanda senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu um líffræðilega fjölbreytni, hafið og loftslagsmál í aðdraganda fundar Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) sem haldinn verður í Kunming í Kína. Í yfirlýsingunni leggja ráðherrarnir áherslu á mikilvægi þess að skapa nægilega víðtækan þekkingargrunn um samspil sjávar, loftslags og líffræðilegrar fjölbreytni.

Upplýsingar

Adopted
12.05.2021
Location
Copenhagen

Vistkerfi hafsins eru rík og afkastamikil og þau veita vistkerfisþjónustu eins og sjávarfang, búsvæði, erfðaauðlindir og endurnýjanlega orku. Hafið hefur mikil áhrif á loftslagið og hægir á hlýnun jarðar með því að binda umframhita og kolefni í andrúmslofti. Á Norðurlöndum eru hálfumlukt hafsvæði og sjávarvistkerfi á norðurslóðum þar sem hlýnun er hraðari en annars staðar og búast má við miklum afleiðingum af völdum loftslagsbreytinga.

Nefndir Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og líffræðilega fjölbreytni (IPBES) komast að þeirri niðurstöðum í fyrri skýrslum að stjórn á mannlegri starfsemi sem hefur áhrif á sjávarvistkerfin verði að sníða að sífellt hraðari hlýnun andrúmslofts og breyttum umhverfisaðstæðum.

Vistkerfisstjórnun hafsins verður að taka mið af afleiðingum hlýnunar og annarra áhrifaþátta en einnig að bregðast snöggt við breytingum sem verða. Með hraðari loftslagsbreytingum og súrnun sjávar verður sífellt erfiðara að tryggja að almenn heildarnotkun og auðlindanýting verði sjálfbær. Auk þess verður æ margslungnara að átta sig á samanlögðum áhrifum hinna ýmsu athafna og stjórna þeim svo tryggja megi áframhaldandi gott ástand lífríkis sjávar eða endurheimta það sem hefur tapast.

Beina ætti sjónum að því að byggja upp og skapa þekkingu sem styður samþætta og sjálfbæra vistkerfisnálgun við stjórn lífríkis sjávar, sem er sniðin að loftslagsbreytingum og miðast við að auka viðnámsþol sjávarvistkerfa, þar á meðal að samþætta verndun hafsvæða (MPA) og aðra árangursríka svæðisbundna vernd (OECM) stefnu í peninga- og fjármálum.

Við, ráðherrar umhverfis- og loftslagsmála á Norðurlöndum:

Höfum í huga að ástand hafsins er áhyggjuefni.

Minnum á norræna yfirlýsingu um hafið og loftslagsmál sem umhverfis- og loftslagsráðherrarnir samþykktu í Stokkhólmi 30. október 2019.

Styðjum við aðgerðir í þágu náttúrunnar sem taka tillit til áskorana sem tengjast hafinu og loftslagsmálum.

Leggjum áherslu á nauðsyn þess að samþætta vistkerfisnálgun við stjórnun og nýtingu hafsins, sem tekur tillit til þess að loftslagsaðgerðir geta einnig falist í verndun náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni, þar með töldu bláa kolefnisins í hafinu.

Undirstrikum nauðsyn vistkerfisnálgunar í þekkingu um viðhald eða endurheimt sjávarvistkerfa á tímum loftslagsbreytinga.

Leggjum áherslu á nauðsyn þess að metnaðarfullur og markviss alþjóðlegasamningur um líffræðilega fjölbreytni eftir 2020 verði samþykktur á fundi Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem halda á í Kunming í Kína í október 2021 þar sem áhersla er lögð á eftirfarandi atriði:

  • Draga úr álagi þátta sem beinlínis knýja fram tap á líffræðilegri fjölbreytni, t.a.m. breytt nýting lands og sjávar, bein nýting lífvera, loftslagsbreytingar, mengun og ágengar framandi tegundir, en einnig þátta sem hafa óbein áhrif;
  • Efla viðleitni til sjálfbærrar nýtingar á líffræðilegri fjölbreytni, einnig með aðgerðum sem stuðla að sjálfbærri framleiðslu og sjálfbærum aðfangakeðjum;
  • Vernda og viðhalda að minnsta kosti 30 prósentum af land- og hafsvæðum fyrir árið 2030 með dæmigerðum, tengdum, stjórnuðum og skilvirkum kerfum verndaðra svæða og annarri skilvirkri svæðavernd einkum á svæðum sem eru sérlega mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni;
  • Skuldbinda okkur til að stuðla að því að hagnýt áætlanagerð, skýrslugjöf og endurskoðun verði hluti rammans og til að hefjast handa hið fyrsta við að samræma stefnur landanna við nýjan alþjóðasamning þegar búið er að samþykkja hann;
  • Virkja breiðan hóp í norrænum samfélögum til að þróa og skala áhrifamiklar aðgerðir, þar á meðal frumbyggja og nærsamfélög, sveitarstjórnir og svæðayfirvöld, vísindasamfélagið, konur og ungt fólk svo og atvinnulífið, fjármálageirann og félagasamtök.

Árétta skuldbindingu okkar um að innleiða og framfylgja sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem varða hafið og undirstrika mikilvægi þess að styðja áratug Sameinuðu þjóðanna sem helgaður er hafvísindum í þágu sjálfbærrar þróunar (2021-2030), svo og áratug sem Sameinuðu þjóðirnar helga endurheimt vistkerfa (2021–2030).

Fagna frekari vinnu að þróun þekkingargrunns í þeim tilgangi að bæta lífríki sjávar, en þar má nefna:

  • Uppfærða mynd af vísindalegri þekkingu svo og hefðbundinni þekkingu frumbyggja og nærsamfélaga um mikilvæga þætti svo takast megi að varðveita eða endurheimta sjávarvistkerfi og vistkerfaþjónustu á tímum loftslagsbreytinga;
  • Að skapa sameiginlegan skilning á „sjálfbærni“ í umhverfisþáttum sjálfbærrar þróunar sem varða hafið og vistkerfi þess;
  • Þekkingu á mikilvægi sjávarvistkerfa til að binda kolefni úr andrúmslofti og hvernig hægt er að viðhalda og auka getu til að fanga og geyma kolefni;
  • Væntanleg áhrif verndunaraðgerða á atvinnugreinar og verðmætasköpun sem byggist á endurnýjanlegum auðlindum og nýtingu sjávarvistkerfa, svo sem fiskveiðar og lífefnaleit fyrir matvæla- og lyfjaiðnað.

Hvetja nefnd Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfaþjónustu (IPBES) til að íhuga nauðsyn þess að safna saman vísindalegri þekkingu og styrkja þekkingargrunn í því skyni að finna árangursríkar leiðir til að efla sjávarvistkerfin með verndun eða endurheimt til að tryggja gott ástand og viðnámsþol náttúrunnar en einnig að viðhalda mikilvægri vistkerfaþjónustu á tímum loftslagsbreytinga.

 

Kaupmannahöfn 12. maí 2021

Undirritað af

Krista Mikkonen, ráðherra umhverfismála og loftslagsbreytinga, Finnlandi

 

Lea Wermelin umhverfisráðherra, Danmörku

 

Per Bolund, umhverfis- og loftslagsráðherra og aðstoðarforsætisráðherra, Svíþjóð

 

Sveinung Rotevatn, loftslags- og umhverfisráðherra, Noregi 

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Íslandi

 

Kalistat Lund, ráðherra landbúnaðar-, sjálfsnægta-, orku- og umhverfismála, Grænlandi

 

Helgi Abrahamsen, umhverfis-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Færeyjum

 

Alfons Röblom, þróunarmálaráðherra, Álandseyjum