Framtíðarsýn okkar 2030

20.08.19 | Yfirlýsing
Vejviser
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlönd eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims

Upplýsingar

Samþykkt
20.08.2019
Staðsetning
Island

Norðurlöndin eru heimkynni okkar, okkar heimur. Úthaf tengir okkur saman, skógar og vötn veita okkur skjól og næringu, ferskir vindar blása um blómleg engi, eyjar og sker. Við eigum fjöll og firði, jökla og eldfjöll, svarta sanda og djúpa dali. Alls staðar á Norðurlöndum, í borgum og sveitum, reynum við að lifa í samhljómi við náttúruna og byggja sjálfbær samfélög.

En við verðum að gera betur. Loftslagsbreytingar, mengun og ógnir við líffræðilega fjölbreytni kalla á alla athygli okkar, alla okkar orku. Um leið reynir æ meira á norræna líkanið þegar lýðræði, samþætting og samfélag án aðgreiningar eru undir þrýstingi.

Við á Norðurlöndum, sem búum í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, erum staðráðin í að taka forystu í því að finna góðar framtíðarlausnir. Við ætlum að hlusta á unga fólkið og tökum undir með því að aðkallandi sé að grípa til beinna aðgerða í loftslagsmálum.

Góðu fréttirnar eru þær að þetta er hægt. Við getum breytt lífsháttum okkar, framleiðslu og neyslu, skapað jafnvægi milli nýtingar og verndar náttúruauðlinda á landi og í hafinu og á þann hátt tryggjum við sjálfbæra þróun til framtíðar. Við getum tryggt lýðræði, samfélag án aðgreiningar, samþættingu og hreyfanleika. Um leið sendum við skýr skilaboð til umheimsins um að jákvæð breyting sé möguleg.

Lausnirnar eru til – þær eru beint fyrir framan okkur. Sjálfbær orkuframleiðsla og kolefnishlutleysi, grænar samgöngur og fjárfestingar, lífhagkerfið og hringrásarhagkerfið. Lausnin er ekki ein heldur margar og á mörgum sviðum samtímis. Grænt hagkerfi byggist á nýsköpun, skapar störf og eykur samkeppnishæfni.

Á Norðurlöndum höfum við ítrekað sýnt að við erum sterkari saman. Jafnrétti og velferð eru forsendur fyrir nægri atvinnu og öflugu hagkerfi. Menning og tungumál styðja gildi okkar og ýta undir samnorræna sjálfsmynd. Menntun, nýsköpun og rannsóknir eru undirstöður framtíðarinnar. Hreyfanleiki og samþætting gera okkur kleift að stunda nám, ferðast, starfa og hefja atvinnurekstur hvert hjá öðru. Friðsöm og lýðræðisleg samfélög án aðgreiningar þar sem allir íbúar taka virkan þátt og hafa réttindi og skyldur eru sterk samfélög sem geta tekist á við stórar áskoranir.

Tímabært er að virkja innri styrk Norðurlanda í þágu loftslagsmála og samfélagsins og setja þau mál í algeran forgang. Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun til ársins 2030 og Parísarsamkomulagið vísa veginn en við verðum að auka metnað okkar og herða róðurinn. Með því að þróa þekkingu og bera saman reynslu okkar finnum við nýjar og frumlegar norrænar lausnir. Við náum árangri með því að virkja fólk, félagasamtök og fyrirtæki til þátttöku – virkja okkur sjálf. 

Við á Norðurlöndum setjum okkur þá framtíðarsýn að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Samstarfið í Norrænu ráðherranefndinni á að þjóna því markmiði.

Við hefjumst handa í dag.

Til þess að sú framtíðarsýn rætist ætlum við að leggja sérstaka áherslu á:

  • Græn Norðurlönd – Saman ætlum við að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélögum okkar og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásarhagkerfi og lífhagkerfi.
  • Samkeppnishæf Norðurlönd – Saman ætlum við að efla grænan hagvöxt á Norðurlöndum, byggðan á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu.
  • Félagslega sjálfbær Norðurlönd – Saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.

Þessar þrjár stefnumarkandi áherslur munu gilda til ársins 2024.

Starfið á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar á að leggja sitt af mörkum til að stuðla að hinum stefnumarkandi áherslum og þar með framtíðarsýninni og markmiðum hennar. Allar ráðherranefndir og stofnanir eiga að stuðla að því með beinum aðgerðum og tryggja í sameiningu að framtíðarsýnin rætist.

Í skýrri framtíðarsýn með stefnumarkandi áherslum í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar á komandi árum felst einnig skýrari og einfaldari stjórnun. Í því skyni að stuðla að langtímasýn og fyrirsjáanleika verða stefnumarkandi áherslur þær sömu í fjögur ár og þær verða stjórntæki við gerð fjárhagsáætlunar og í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar. Verulegur hluti fjármagns Norrænu ráðherranefndarinnar á að styðja með beinum hætti að framtíðarsýnin og stefnumarkandi áherslur verði að veruleika. Samtímis er þörf á að viðhalda sveigjanleika svo hægt verði að bregðast skjótt við óvæntum pólitískum aðstæðum sem geta komið upp.

Mikilvægt er að markmið í starfi okkar séu skýr en ekki er síður mikilvægt að við fylgjum árangrinum eftir. Eigi það að takast þurfa allir þættir í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar að hafa skýr markmið sem tengjast framtíðarsýninni. Samstarfsráðherrarnir vilja tryggja þetta með því að hefja ferli með virkri þátttöku allra fagráðherranefnda í því skyni að finna miðlæg markmið sem síðan verða grundvöllur fyrir þverlægar framkvæmdaáætlanir fyrir hinar stefnumarkandi áherslur. Í framkvæmdaáætlunum skal einnig tekið fram hvaða samstarfssvið eiga að hafa umsjón með hinum stefnumarkandi áherslum.

Framtíðarsýnin og stefnumarkandi áherslur eiga að skapa grundvöll fyrir auknu upplýsingaflæði og kynningu á norrænu samstarfi, heima fyrir og hnattrænt.

Norrænu forsætisráðherrarnir bera meginábyrgð á norrænu samstarfi. Samhæfing á norræna ríkisstjórnasamstarfinu er í höndum norrænu samstarfsráðherranna (MR-SAM). Samstarfsráðherrarnir bera því meginábyrgð á því að fylgja eftir hvernig framtíðarsýninni og stefnumarkandi áherslum verður hrint í framkvæmd.

Samstarfsráðherrarnir munu gera norrænu forsætisráðherrunum grein fyrir framvindu vinnunnar við að ná framtíðarsýninni og stefnumarkandi áherslum. Fyrsta skýrslan verður birt á haustdögum 2022 og á grundvelli hennar verða settar nýjar eða endurskoðaðar stefnumarkandi áherslur á komandi tímabili.

Á Norðurlöndum höfum við ítrekað sýnt að við erum sterkari saman.

Norrænu forsætisráðherrarnir