Börn og ungmenni með geðkvilla geti leitað hjálpar á netinu

20.09.17 | Fréttir
Kunskaper i brnrätts- och ungdomsfrågor i Norden
Ljósmyndari
norden.org
Norðurlandaráð vill þróa stafrænar lausnir til aðstoðar börnum og ungmennum sem eiga erfitt andlega. Ráðið leggur til að norrænu ríkisstjórnirnar láti vinna úttekt þar sem þeim stafrænu lausnum sem eru fyrir hendi – svo sem smáforritum – verði forgangsraðað með áherslu á bestu starfshætti, með það að markmiði að auðvelda börnum og ungmennum að finna hjálp við hæfi á netinu.

Geðkvilla verður æ oftar vart meðal ungs fólks og eru þeir einn helsti lýðheilsuvandinn í samfélögum Norðurlanda. Tölur sýna að 10 til 20 prósent byrja að finna fyrir geðrænum kvillum á unglingsárunum og þurfa hjálp við þeim. Þessi ungmenni eru í mikilli hættu á að verða útundan á vinnumarkaði og í öðru félagslegu samhengi. 

Kynslóð sem líður ekki vel

 „Unga fólkið okkar á erfitt andlega vegna allra þeirra krafna sem samfélagið gerir til þess. Það þarf hjálp við að verða nógu hraust til að geta stundað vinnu og sinnt fjölskyldulífi,“ segir Bente Stein Mathisen, en hún er sjálf hjúkrunarfræðingur og hefur unnið með mál af þessu tagi. Nú er hún formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs, sem hefur verið fremst í flokki við vinnslu tillögu til norrænu ríkisstjórnanna um aukna áherslu á að hjálpa börnum og ungmennum að yfirstíga andlega erfiðleika.

Markmiðið er stuðningur og hjálp

Norðurlandaráð leggur til að úttektin á stafrænum úrræðum nái til hins opinbera, einkageirans og almennings og verði tengd við faglega sérfræðinga og ráðgjafarhópa meðal ungs fólks.

 „Það er mikilvægt að rannsaka þessi mál með það að markmiði að finna þær lausnir sem þarf til að styðja og hjálpa ungmennum sem eiga í andlegum erfiðleikum,“ segir Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs.

Stafræn væðing var meginþema á septemberfundum Norðurlandaráðs í Reykjavík.