Britt Lundberg greiðir atkvæði með tillögunni um stöðu finnsku og íslensku

22.09.17 | Fréttir
Britt Lundberg
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Á Norðurlandaráðsþingi í haust mun forseti ráðsins, Britt Lundberg, greiða atkvæði með tillögu finnsku og íslensku landsdeildanna um breytta stöðu finnsku og íslensku. Tillagan gengur út á að finnska og íslenska verði jafnrétthá skandinavísku málunum sem vinnutungumál í Norðurlandaráði. Málið verður afgreitt á þingi ráðsins í nóvember.

Fjallað var um hina finnsk-íslensku tillögu á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Reykjavík 20. september. Þá greiddi Britt Lundberg atkvæði með annarri tillögu; málamiðlun sem hefði styrkt stöðu finnsku og íslensku innan ráðsins en án þess þó að veita þeim stöðu vinnutungumála. Varð málamiðunartillagan hlutskarpari með sex atkvæðum á móti fimm. Í kjölfarið gagnrýndu þingmenn finnsku landsdeildarinnar Britt Lundberg harðlega fyrir að hafa ekki stutt tillögu þeirra.

Endanlega niðurstaða 2. nóvember

Lundberg skýrði afstöðu sína með því að hún reiknaði ekki með að tillaga Finna og Íslendinga yrði samþykkt í atkvæðagreiðslu alls Norðurlandaráðs. Hinsvegar teldi hún málamiðlunartillöguna geta hlotið hljómgrunn á þinginu og vildi tryggja að hún yrði lögð þar fram. Hefði málamiðlunartillagan verið felld af forsætisnefnd hefði hún sennilega horfið með öllu og þá hefði ekkert gerst til að bæta stöðu finnskunnar og íslenskunnar.

Nú, þegar tryggt er að málamiðlunartillagan verður tekin til umfjöllunar, segir Britt Lundberg að hún muni samt sem áður greiða atkvæði með tillögu Finna og Íslendinga þegar hún verði tekin til endanlegrar afgreiðslu á þinginu.

„Endanleg niðurstaða fæst í málið annan nóvember. Þá hyggst ég greiða atkvæði með tillögu Finna og Íslendinga. Í öllu ferlinu hef ég beitt mér fyrir hagsmunum finnskumælandi þingmanna í málinu og mun gera það áfram,“ segir Britt Lundberg

Feldt-Ranta ánægð

Maarit Feldt-Ranta, varaformaður finnsku landsdeildarinnar í Norðurlandaráði, segist fagna ákvörðun Lundbergs.

„Ég fagna því að Lundberg hafi séð að sér og sé auk þess reiðubúin að styðja tillöguna sem finnska landsdeildin hefur þegar samþykkt einróma. Við viljum efla réttindi allra til að starfa á jöfnum forsendum innan Norðurlandaráðs. Það er eitt af grundvallaratriðum starfsins eins og það leggur sig og um það fjallar tillaga finnsku og íslensku landsdeildanna. Tillaga okkar kallar ekki á neinn umframkostnað næstu fimm árin og hún er mikilvægt skref í þá átt að ráðið verði aðgengilegra fyrir alla. Það er vel að Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs og formaður flokkahóps miðjumanna, vilji beita sér fyrir tungumálatengdum réttindum innan ráðsins,“ segir Feldt-Ranta.

Um málið:

  • Á Norðurlandaráðsþingi 2016 lögðu landsdeildir Finnlands og Íslands fram tillögu þess efnis að finnska og íslensku skyldu hljóta opinberan sess sem vinnutungumál í Norðurlandaráði líkt og skandinavísku málin.
  • Síðan þá hefur málið verið til meðferðar í Norðurlandaráði við ýmis tækifæri.
  • Síðast var fjallað um það í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, sem undirbjó tillöguna sem lögð verður fyrir Norðurlandaráðsþing í Helsinki mánaðamótin október/nóvember til endanlegrar afgreiðslu.
  • Í atkvæðagreiðslu forsætisnefndar beið tillaga finnsku og íslensku landsdeildanna lægri hlut með 5 atkvæðum á móti 6, en hlutskarpari varð tillaga sem myndi bæta stöðu finnsku og íslensku í Norðurlandaráði án þess þó að veita þeim stöðu vinnutungumála. Erkki Tuomioja frá Finnlandi gerði fyrirvara við niðurstöðuna, sem þýðir að atkvæðagreiðsla milli tillaganna tveggja fer aftur fram á haustþinginu.
  • Á þinginu þann 2. nóvember taka hinir 87 þingmenn Norðurlandaráðs ákvörðun um málið.